„Göngum saman til að efla samstöðuna“
![](/static/news/lg/kennarar-i-kirkjutroppum.jpg)
Talið er að á þriðja hundrað manns hafi mætt í samstöðugöngu sem Bandalag kennara á Norðurlandi eystra (BKNE) boðaði til á Akureyri í kvöld. Hópurinn kom saman við Rósenborg, gamla Barnaskóla Akureyri, og gekk þaðan niður kirkjutröppurnar og út á Ráðhústorg.
„Kennarafélag Reykjavíkur skipulagði samstöðufund á Austurvelli í kvöld, þegar forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína, og þar sem við gátum ekki farið suður ákváðum við að boða til göngu hér,“ sagði Hanna Dóra Markúsdóttir, formaður BKNE við Akureyri.net í kvöld, ánægð eftir samkomuna.
„Við vildum hittast til þess að efla samstöðuna. Við erum hvergi af baki dottin,“ sagði Hanna Dóra. „Við töpuðum í Félagsdómi en kennarar fara að lögum og mættu auðvitað til vinnu í morgun og svo verða skipulagðar aðrar aðgerðir.“