Göngugatan glerhál vegna bilunar í hitadælu
Hitakerfið í göngugötunni á Akureyri hefur ekki virkað sem skyldi síðustu daga. Erfitt hefur verið fyrir gangandi vegfarendur að fóta sig í miðbænum vegna hálku.
„Það er búið að vera eitthvað vesen á hitadælunum. Sumstaðar eru þær í lagi en ekki allstaðar en það er verið að vinna í því að auka rennslið,” segir Guðríður Friðriksdóttir, sviðstjóri umhverfis - og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar.
Töluverður snjór og frost
Bilunin kom upp á versta tíma en á fimmtudaginn síðasta byrjaði að kyngja niður snjó á Akureyri og frostið fór verulega að bíta um helgina.
Vegfarendur í miðbænum hafa því fundið vel fyrir því að hitakerfið í göngugötunni hefur ekki unnið neitt á ísnum sem myndast hefur í götunni. „Það er ekki boðlegt að hafa þetta svona en okkar menn eru á fullu að laga þetta,” segir Guðríður.