Fara í efni
Fréttir

Glugginn „dúxaði“ á slagveðursprófinu

Glugginn góði og nokkrir karlanna á verkstæði Húsheildar - Hyrnu ásamt Eiríki. Frá vinstri: Eiríkur Guðberg Guðmundsson, Finnur Dúa, Eiður Marvin, Þórir Garibaldi, Björgvin Pálmi, Eyjólfur Ívarsson og Kristbjörn Elmar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Smíði timburglugga er hafin hjá Húsheild - Hyrnu á Akureyri og þar er markið sett hátt. Á dögunum var gluggi frá fyrirtækinu prófaður í Tæknisetrinu í Reykjavík með framúrskarandi árangri að sögn Eiríks Guðbergs Guðmundssonar, framleiðslu- og sölustjóra, sem segist þess fullviss að Húsheildar - Hyrnu gluggar verði orðið þekkt vörumerki áður en langt um líður.

„Það má segja að þetta sé gamla Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins,“ segir Eiríkur um Tæknisetrið. „Þar var á sínum tíma löggildur klefi sem slagveðursprófar glugga, en þegar stofnunin var lögð niður, hætti löggildingin.“

Mun meiri kröfur

Eiríkur kveðst binda vonir við að klefinn hljóti löggildingu á ný á þessu ári enda skipti það miklu máli. Mun meiri kröfur séu gerðar um glugga sem notaðir eru við íslenskar aðstæður en annars staðar í Evrópu og ekki sé hægt að bjóða framleiðendum, sem oft séu lítil fyrirtæki, upp á að senda vöru úr landi til prófunar. Það sé mjög kostnaðarsamt.

Glugginn frá Húsheild – Hyrnu dúxaði á prófinu í Tæknisetrinu, ef svo má segja. „Það blés ekkert með glugganum sem kom mér reyndar svolítið á óvart; ég hafði hann töluvert stærri en venjulega til að láta reyna enn meira á fagið.“

Handgert að mestu leyti

Eiríkur nefnir að þegar ákveðið var að hefja gluggasmíði hafi ekki annað komið til greina en að gæðin skyldu höfð í fyrirrúmi. Áhersla skyldi lögð á að gluggar fyrirtækisins stæðust ítrustu kröfur sem gerðar eru hérlendis, enda engir aukvisar á verkstæðinu. „Við erum hér með faglærða húsasmíðameistara og húsasmiði við að smíða gluggana,“ segir Eiríkur við Akureyri.net. „Mjög lítil sjálfvirkni er í þessari smíði hjá okkur heldur er varan handgerð nánast frá A til Ö, sem tryggir mikil gæði.“

Bræðurnir Ólafur og Hilmar Ragnarssynir, eigendur verktakafyrirtæksins Húsheildar, keyptu byggingafélagið Hyrnu á Akureyri, í árslok 2021 og sameinuðu þau.

Annað gamalgróið fyrirtæki kemur hér við sögu, ef svo má segja: Trésmiðjan Börkur á Akureyri var þekkt á landsvísu fyrir gæðaglugga og hurðir þá hálfu öld sem fyrirtækið var og hét. Fyrir nokkrum árum seldu stofnendurnir fyrirtækið, það var sameinað öðrum í nafni Kamba og á síðasta ári var öllum starfsmönnum á Akureyri sagt upp og framleiðslan flutt suður á land.

Eiríkur Guðberg var framleiðslustjóri hjá Kömbum en var boðin vinna hjá Húsheild - Hyrnu fljótlega eftir að skellt var í lás á gamla vinnustaðnum.

Hringdi í gömlu félagana

„Hér voru smíðaðir gluggar á sínum tíma og vélarnar enn til,“ segir hann þegar spurt er hvers vegna fyrirtækið hafi ákveðið að bæta gluggasmíði við margvísleg verkefni. „Ég athugaði því fljótlega hvort gamlir vinnufélagar á Berki væru enn á lausu og fékk nokkra hingað; verkstjórann minn, þann sem sá um gæðamál og frágang, sprautarann og tvo aðra,“ segir Eiríkur.

Hann segir nokkur traust fyrirtæki hafa verið tilbúin að kaupa glugga af Húsheild – Hyrnu þegar þar að kæmi og eftir nokkurra mánaða undirbúning var því hafist handa síðsumars í fyrra. Meðal viðskiptavina eru margir verktakar á Akureyri en gluggar fyrirtækisins prýða hús víðar um land.

Gæðavara eins og umræddir gluggar eru dýrari en fjöldaframleidd, innflutt vara, segir Eiríkur aðspurður. Það gefi auga leið. „En þegar öllu er á botninn hvolft eru þessir gluggar ekki dýrir í stóra samhengingu því fólk þarf ekki að hugsa um þá í nokkur ár.“

Eiríkur segir margt í pípunum varðandi smíðina, m.a. er álklæðingarkerfi utan á gluggana í þróun. „Við sjáum gífurleg tækifæri á Norður- og Austurlandi því það er vöntun á gluggum og hurðum.“

Líka „venjulegt fólk“ úti í bæ

Húsheild – Hyrna hefst fljótlega handa við byggingu fjölbýlishúss við Skarðshlíð á Akureyri og annað er í byggingu við Hulduholt.

Vart þarf að taka fram að gluggarnir þar verða heimasmíðaðir og Eiríkur svarar játandi þegar spurt er hvort fyrirtækið þjónusti einnig venjulegt fólk úti í bæ; einstaklinga sem þurfi nýja glugga.

„Já, allir geta leitað til okkar. Það eru að vísu fáir sem vita af því aðrir en verktakar en það hefur spurst út – sem er auðvitað gott. Hér eru miklir fagmenn með meira en 25 ára reynslu af ísetningu á gluggum og hurðum og við bjóðum upp á þá þjónustu að koma heim til fólks, mælum fyrir gluggum og hurðum, smíðum síðan og setjum í ef þarf,“ segir Eiríkur. „Við metum fyrir fólk hvort þurfi að smíða nýja glugga eða ekki, stundum er nóg að skipta bara um gler.“