GLEÐILEGT SUMAR!
![](/static/news/lg/andres-imgl3487.jpg)
Sumardagurinn fyrsti er runninn upp og því ber að fagna. Veturinn er þar með formlega að baki en synd væri reyndar að segja að sú fallega árstíð, sumarið, sé mætt í allri sinni dýrð því veðrið hefur oft verið betra en í dag.
En dagatalið lýgur ekki og á þessum degi ársins er orðið jafn öruggt að keppni hefjist á Andrésar andar leikunum í Hliðarfjalli og að Íslendingar trúi því að sumarið sé komið.
Þessir árlegu leikar sem kenndir við öndina Andrés eru stærsta skíðamót landsins, keppendur eru tæplega 900 á aldrinum 4-15 ára. Þeim fylgja þjálfarar, fararstjórar, foreldrar og fjölskyldur og má því gera ráð fyrir að um 3-4000 manns sæki leikana með einum eða öðrum hætti, að sögn skipuleggjenda.
Setningarathöfn leikanna fór fram í Íþróttahöllinni í gærkvöldi að lokinni hefðbundinni skrúðgöngu frá Lundarskóla. Leikarnir eru nú haldnir í 48. skipti. Keppni hefst klukkan 9.00 í dag og lýkur um miðjan laugardag.
Akureyri.net óskar krökkunum góðrar skemmtunar í Hlíðarfjalli og lesendum nær og fjær gleðilegs sumars!
Facebook síða Andrésar andar leikanna
Söngvarinn Prettyboitjokko – Patrik Snær Atlason – skemmti krökkunum á setningarhátíð Andrésar andar leikanna í Íþróttahöllinni í gærkvöldi. Myndir: Þorgeir Baldursson