Fara í efni
Fréttir

Glæsilegt leiksvæði Síðuskóla – MYNDIR

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Nýtt leiksvæði við Síðuskóla var formlega tekið í notkun í morgun að viðstöddu fjölmenni en svæðið hefur vakið stormandi lukku meðal nemenda við skólann og íbúa hverfisins.

Ólöf Inga Andrésdóttir, skólastjóri Síðuskóla, stýrði stuttri dagskrá sem hófst á því að Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, sagði nokkur orð, óskaði nemendum til hamingju með nýja leiksvæðið og bað þá að passa það vel, ganga vel um það, svo hægt yrði að njóta þess um ókomin ár.

Því næst sungu nokkrir nemendur úr 6. bekk skólasönginn, Við sem erum saman í Síðuskóla, og loks kallaði Ólöf Inga skólastjóri á svið heiðursgest dagsins; þar var á ferð Eva Wium Elíasdóttir, fyrrverandi nemandi við skólann. Ólöf sagði að Eva hefði á sínum tíma verið í nemendaráði og hvatt mjög til þess að við skólann yrði settur upp körfuboltavöllur, nú væri sá draumur orðinn að veruleika og því við hæfi að Eva tæki fyrsta skotið á körfu á nýja vellinum. Eva er leikmaður með meistaraflokki Þórs sem leikur í efstu deild Íslandsmótsins og hún var nýlega valin í A-landslið Íslands í fyrsta skipti!  

Eva Wium Elíasdóttir, til vinstri, landsliðskona í körfubolta og fyrrverandi nemandi við skólann, var heiðursgestur í morgun og skaut fyrst allra í körfu á nýjum velli við skólann. Hópur krakka fékk síðan að spreyta sig.

Þegar lóðin var skipulögð var leitað álits nemenda sem komu með tillögur að tækjum og var unnið úr þeim við hönnun svæðisins. Ólöf Inga, skólastjóri, segir að nemendur hafi fengið nánast allt sem þeir óskuðu sér. Hönnuðir og starfsfólk umhverfis- og mannvirkjasviðs hafi alltaf tekið tillit til óska nemenda og samvinnan verið frábær. Einnig ber að nefna, segir á vef Akureyrarbæjar, að stjórn foreldra- og kennarafélags Síðuskóla, FOKS, var mjög dugleg við að aðstoða við alla hugmyndavinnu og framkvæmdina. „Útkoman er enda eins og best verður á kosið. Að gera svona vel útbúna skólalóð er mikil lyftistöng fyrir hverfið og hér hefur verið líf og fjör síðan lóðin var tilbúin,“ sagði Ólöf Inga Andrésdóttir.