Glæsileg líkön þriggja ÚA togara afhjúpuð
Glæsileg líkön af þremur togurum Útgerðarfélags Akureyringa voru afhjúpuð við hátíðlega athöfn á fimmtudaginn, nákvæmlega 50 árum eftir að sá fyrsti þeirra – Kaldbakur EA 301 – kom til heimahafnar á Akureyri. Kaldbakur, sem smíðaður var á Spáni, sigldi inn Eyjafjörð fimmtudaginn 19. desember 1974.
Aðeins þremur mánuðum eftir að Kaldbakur kom til heimahafnar, kom systurskipið Harðbakur EA 303 til Akureyrar. Líkanið af Kaldbak er því sömuleiðis líkan af Harðbak, enda um systurskip að ræða.
Mynd: Þorgeir Baldursson
Fjölmenni var á hátíðinni, sem haldin var í matsal Útgerðarfélags Akureyringa á fimmtudaginn. Auk hins sameiginlega líkans af systurskipunum var afhjúpað líkan af Sólbak EA 5, togara sem kom til heimahafnar á Akureyri í febrúar 1972. Hann var upphaflega í eigu franskrar útgerðar, smíðaður fyrir hana í Póllandi árið 1967.
Líkönin smíðaði Elvar Þór Antonsson á Dalvík eins og fleiri sem afhjúpuð hafa verið undanfarin misseri. Það eru fyrrum sjómenn hjá ÚA, undir forystu Sigfúsar Ólafs Helgasonar, sem staðið hafa fyrir smíðinni.
Þorsteinn Vilhelmsson og Þóra Ýr Sveinsdóttir. Mynd: Þorgeir Baldursson
Á hátíðinni þakkaði Sigfús Ólafur sjómönnum, og öðrum sem lagt hafa málinu lið, fyrir samstöðuna við verkefnið.
„Í dag er gríðarlega mikil vakning meðal sjómanna á Akureyri að tala um söguna, rifja hana upp, og deila henni með sögum, hundruðum ef ekki þúsundum ljósmynda, og síðast en ekki síst í þessum skiplíkönum sem Elvar Þór Antonsson á Dalvík smíðar svo ekki verður betur gert, sem við erum að leggja hér fram sjómenn sem minningu um veröld sem var,“ sagði Sigfús.
Valur Finnsson og Birgir Laxdal Baldvinsson af hjúpa líkanið af Sólbak. Mynd: Þorgeir Baldursson
„Fjármögnum þessara skiplíkana er að stærstum hluta komin frá sjómönnumun sjálfum, þó sannarlega með dyggum stuðningi fyrirtækja á borð við Samherja sem og stéttarfélaga sjómanna einnig. Þessi saga er okkur sem störfuðum hjá ÚA á sínum tíma mjög kær og hana viljum við segja til komandi kynslóða. Þess vegna fórum við af stað í að safna fyrir þessum líkönum og við erum ekki hættir, því við ætlum að láta smíða að minnsta kosti eitt skip enn.“
Karlakór Akureyrar - Geysir söng nokkur lög á hátíðinni á fimmtudaginn og þrír gamlir sægarpar héldu tölu.
Freysteinn Bjarnason yfirvélstjóri á Kaldbak EA 301 sagði frá smíði skipsins og heimsiglingu, Sævar Örn Sigurðsson loftskeytamaður sagði frá heimsiglingu Harðbaks EA 303 og Þorsteinn Vilhelmsson skipstjóri rifjaði upp sjómannslífið. Steini Villa var aðeins 22 ára þegar hann fór fyrsta túrinn sem skipstjóri á Sólbak.
Það voru Þóra Ýr Sveinsdóttir og Þorsteinn Vilhelmsson sem afhjúpuðu líkanið af Kaldbak og Harðbak.
Faðir Þóru Ýrar var Sveinn heitinn Hjálmarsson sem var í áhöfn Kaldbaks liðlega þrjá áratugi. Hann var einn þeirra sem sótti skipið til Spánar 1974, var fyrst 2. stýrimaður, síðan 1. stýrimaður og loks skipstjóri. Sveinn lét af störfum 2005.
Foreldrar Þorsteins voru Anna Kristjánsdóttir og Vilhelm Þorsteinsson, sem lengi var fengsæll skipstjóri á togurum ÚA og síðar annar tveggja framkvæmdastjóra félagsins.
- Það var Anna Kristjánsdóttir sem gaf Kaldbak EA 301 nafn við sjósetningu skipsins á Spáni 1974; myndin hér fyrir of af því augnabliki var birt á vef Samherja í dag.
- Eins og fyrr segir voru liðin 50 ár á fimmtudaginn frá því togarinn Kaldbakur EA 301 kom nýr til heimahafnar. Svo skemmtilega vildi til að sama daga og hátíðin var haldin í sal ÚA landaði Kaldbakur EA 1 fiski til vinnslu á Akureyri! Það skip var smíðað í Tyrklandi árið 2017.
Líkanið af Sólbaki EA 5 afhjúpuðu Valur Finnsson, sem var 1. vélstjóri á togarnum þegar hann kom til landsins 1972, og Birgir Laxdal Baldvinsson sem sennilega átti lengstan starfsaldur allra skipverja á Sólbak á sínum tíma.
Á hátíðinni var einmitt skrifað undir samning við Elvar Þór Antonsson fyrir hönd fyrrum sjómanna ÚA um smíði á líkani af ÚA síðutogaranum Harðbak EA 3 og stefnt er að því að afhjúpa það í kringum 80 ára afmæli Útgerðarfélags Akureyringa næsta vor.
Mynd: Hilmar Friðjónsson
Mynd: Hilmar Friðjónsson
Mynd: Hilmar Friðjónsson
Mynd: Þorgeir Baldursson
Mynd: Þorgeir Baldursson
Mynd: Þorgeir Baldursson
Mynd: Þorgeir Baldursson
Mynd: Þorgeir Baldursson
Mynd: Þorgeir Baldursson
Mynd: Þorgeir Baldursson
Mynd: Þorgeir Baldursson
Mynd: Þorgeir Baldursson
Mynd: Þorgeir Baldursson
Mynd: Þorgeir Baldursson
Mynd: Þorgeir Baldursson
Mynd: Þorgeir Baldursson
Mynd: Hilmar Friðjónsson
Mynd: Hilmar Friðjónsson
Mynd: Þorgeir Baldursson
Mynd: Hilmar Friðjónsson
Mynd: Hilmar Friðjónsson