Gjaldtaka hafin á bílastæðum í miðbænum
Gjaldtaka er hafin á bílastæðum í miðbæ Akureyrar. Rafrænar greiðsluleiðir í snjallsímum hafa verið virkjaðar og á vef sveitarfélagsins eru íbúar bæjarins og gestir hvattir til að ná í viðeigandi greiðsluöpp og byrja að greiða fyrir notkun á gjaldskyldum bílastæðum.
„Fyrstu vikurnar eru aðlögunartími og er fólki því gefinn kostur á að ná í smáforrit í símann, læra á lausnirnar og prófa. Ekki verða lagðar á stöðumælasektir fyrr en allur búnaður er kominn í notkun, þar með taldir þrír stöðumælar sem eru væntanlegir um næstu mánaðamót. Stefnt er að því að gjaldskyldan verði að fullu innleidd í byrjun mars,“ segir á vef Akureyrarbæjar.
Greitt með símanum
EasyPark og Parka bjóða upp á greiðsluöpp í snjallsíma „og er í báðum tilvikum um einfaldar og þægilegar lausnir að ræða. Fólk er hvatt til að kynna sér þjónustu þessara fyrirtækja og velja þá lausn sem hentar.“
Á vefsvæði bifreiðastæðasjóðs Akureyrarbæjar eru nánari upplýsingar um rafrænar greiðsluleiðir og margt fleira. Smellið hér til að fara þangað.
Merkingar eru komnar upp á þeim svæðum í miðbænum þar sem eru gjaldskyld bílastæði. Smelltu hér til að skoða kort af gjaldsvæðunum.
Fastleigu- og íbúakort
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um fastleigu- og íbúakort. Íbúar með lögheimili á tilteknum svæðum í miðbænum sem hafa ekki aðgang að bifreiðastæði eiga kost á rafrænu bílastæðakorti og er gjald fyrir slíkt kort 6.000 kr. á ári. Smellið hér til að sjá nánari upplýsingar.
Samkvæmt nýju bílastæðakerfi eru tvö fastleigusvæði í miðbænum. Á svæði F1 (við Skipagötu og Hofsbót) er gjaldið 12.000 kr. á mánuði og á svæði F2 (við Túngötu) er það 6.000 kr. á mánuði. Sótt er um fastleigu- og íbúakortin rafrænt í þjónustugátt bæjarins.