Gjaldfrjáls leikskóli sex klukkutíma á dag
Stefnt er að því að leikskólar Akureyrarbæjar verði gjaldfrjálsir sex klukkustundir á dag frá og með næstu áramótum. Sem sagt: ekki verði greitt leikskólagjald fyrir barn sem er sex klukkustundir eða minna á dag í skólanum, einungis fæðisgjald.
Flokkarnir sem mynda meirihluta í bæjarstjórn hafa unnið að tillögum þessa efnis undanfarna mánuði og málið verður tekið formlega fyrir í fræðslu- og lýðheilsuráði í ágúst að sögn Heimis Arnar Árnasonar, formanns ráðsins og formanns bæjarráðs Akureyrar.
Að sögn Heimis er leikskólagjald nú 45.000 krónur á mánuði með fullu fæði; átta og hálfur tími í skólanum á dag, morgunmatur, hádegismatur og síðdegiskaffi. Þar af er fæðisgjaldið 10.500 kr.
„Það er margt sem vonandi vinnst með þessari breytingu,“ segir Heimir Örn við Akureyri.net. „Þetta ýtir vonandi undir að vinnuaðstæður kennara verði betri, þetta gæti auðveldað styttingu vinnuvikunnar fyrir starfsfólk leikskólanna og gefur auðvitað foreldrum tækifæri til að spara peninga með því að skipuleggja sig vel.“
Gjaldið einnig tekjutengt
„Ég vona svo sannarlega að fleiri geti skipulagt sig einhverja daga vikunnar þannig að barnið þeirra þurfi ekki að vera átta tíma alla virka daga í leikskólanum,“ segir Heimir. Hann nefnir sem dæmi fólk í vaktavinnu, skólafólk og í einhverjum tilfellum geti verið að annar fjölskyldumeðlimur geti sótt barn fyrr í leikskólann til að stytta viðveruna; það sé bæði fjárhagslega hagkvæmt fyrir foreldra og félagslega dýrmætt fyrir börnin og fjölskyldumeðlimi eða vinafólk.
Heimir segir að frá áramótum sé sömuleiðis stefnt að því að tekjutengja leikskólagjöldin sem einnig sé mjög mikilvægt atriði, að hans mati. „Við munum taka þetta formlega fyrir í fræðslu- og lýðheilsuráði í ágúst mánuði og ég geri ráð fyrir að allir flokkar verði ánægðir með tillöguna,“ segir Heimir Örn.