Fara í efni
Fréttir

Giljaskóli orðinn réttindaskóli UNICEF

Nemendur Giljaskóla skrifa undir staðfestingarskjal þess efnis að Giljaskóli sé réttindaskóli UNICEF. Mynd af heimasíðu skólans.

Giljaskóli hlaut í gær viðurkenningu sem Réttindaskóli UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, og er skólinn sá fyrsti utan höfuðborgarsvæðisins sem hlotnast sá heiður. Réttindaskólar UNICEF stuðla að fræðslu um réttindi barna, til nemenda, foreldra og starfsfólks.

Verkefnið hófst fyrir um einu og hálfu ári, í kjölfar þess að Akureyrarbær hlaut viðurkenningu sem fyrsta formlega barnvæna sveitarfélag landsins, þegar Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var innleiddur.

Í Giljaskóla var myndað réttindaráð þar sem sitja fulltrúar nemenda, foreldra og starfsfólks. Ráðið hefur séð um innleiðinguna og mun halda áfram að stuðla að fræðslu um réttindi barna. Starfshættir, líðan, aðgengi og öryggi nemenda og starfsfólks var kortlagt og vann ráðið aðgerðaáætlun til næstu þriggja ára þar sem unnið er að úrbótum á ákveðnum þáttum, að sögn Söndru Rebekku Önnudóttur Arnarsdóttur, kennara og umsjónarmanns verkefnsins. Hún segir ráðið nú þegar hafa stuðlað að því að réttindadagur er haldinn hátíðlegur með þemavinnu út frá réttindum barna hvert ár, barnasáttmálinn hafi verið hengdur í stórri upplausn miðsvæðis í skólanum og réttindi vikunnar séu á upplýsingaskjá skólans.

Kristín Jóhannesdóttir skólastjóri Giljaskóla segist fagna þessum áfanga. „Skólar eru fyrir börn og því eiga réttindi þeirra að vera í hávegum höfð. Það hefur verið lærdómsríkt að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni og við erum stolt af árangrinum hingað til. Ég vona að skólastarfið í Giljaskóla verði þekkt fyrir viðurkenningu á réttindum barna og lýðræðislegt skólastarf sem einkennist af þátttöku nemenda og jafnrétti,“ er haft eftir Kristínu á vef Akureyrarbæjar. 

Í tilefni viðurkenningarinnar var þemadagur í Giljaskóla í gær og unnu nemendur verkefni sem tengjast réttindum barna. Að lokinni viðurkenningarathöfn, sem var rafræn sökum aðstæðna, var boðið upp á skúffuköku og skrifaði hver árgangur undir staðfestingarsjal sem hengt verður upp í skólanum.