Gestagangur og lausar skrúfur á opnu húsi
Opið hús var haldið í Grófinni síðastliðinn fimmtudag, 23. janúar. Gestum bauðst að skoða nýtt húsnæði samtakanna, en þau fluttu sig um einn rass í Hafnarstrætinu, úr nr. 95 í nr. 97. Þrátt fyrir að hafa ekki farið langt, munar aldeilis um minna. Áhrif myglu og slæms innilofts hafði hrjáð starfsfólk og þátttakendur í fyrra húsnæðinu um árabil, en nú er allt annað upp á teningnum.
Hækkandi sól og hreinna loft kærkomið í geðræktinni
Pálína Sigrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Grófarinnar, segir að það sé mikið gleðiefni að vera komin í hreinna loft. Það er þó vitað mál að lausnin er tímabundin, en húsnæðið er fjórfalt dýrara í leigu en fyrra húsnæði. Grófin er gjaldfrjálst úrræði fyrir fólk með geðrænan vanda og eins og gefur að skilja, er reynt að nýta hverja krónu skynsamlega.
„Við erum öll á uppleið eftir að losna úr myglunni,“ segir Pálína. „Við erum búin að vera hérna síðan 1. nóvember og byrjuðum dagskrána um miðjan desember. Við finnum svo sannarlega mun. Orkan hefur rokið upp.“
Það eru fleiri hugguleg samtalsherbergi í nýja húsnæðinu, þar sem gefst kostur á því að loka að sér. Mynd: RH
„Við erum ekki búin að breyta miklu, það hefur aðallega verið tilfærsla varðandi hvar hlutirnir eru, en dagskráin og þjónustan eru af svipuðu tagi,“ segir Pálína. „Húsnæðið er rýmra og núna höfum við góðan fundarsal og fleiri rými fyrir spjall og minni hópa, þar sem er hægt að loka að sér. Það eru kannski mestu búbæturnar.“
Pálína segir að úrræðið sé vel nýtt, en að meðaltali koma 24 notendur á dag í Grófina. „Það fer svolítið eftir árstíma og dögum, það er mismikil traffík eftir því hvað er á dagskrá. Suma daga koma 10-12 manns og suma daga yfir þrjátíu. Ég finn líka fyrir því, að það er alltaf að fjölga nýjum andlitum,“ segir hún. „Við erum líka að sjá fólk úr fleiri stöðum í kerfinu, hópurinn er að verða fjölbreyttari, sem er mjög gott. Aðsókn fólks sem er að sækja sér kannski stuðningsviðtöl og kynningar hefur aukist.“
Lausa skrúfan er ein leið til þess að styðja starf Grófarinnar. Mynd: RH
„Við erum að setja aukinn kraft í fjáröflun, til þess að geta komist í gegnum þennan tíma á meðan við þurufm að borga hærri leigu,“ segir Pálína. „Eitt af því, sem er hægt að gera til þess að styrkja okkur er í gegn um Lausu skrúfuna.“ Búið er að setja saman viðamikla heimasíðu um Lausu skrúfuna, þar sem í boði er fræðsla, reynslusögur, bjargráð og fleira. Sala hefst á Glerártorgi 15.mars en svo er líka möguleiki á því að kaupa sér skrúfu gegnum vefsíðuna, styrkja Grófina með einni greiðslu eða gerast mánaðarlegur styrktaraðili. HÉR er heimasíða Lausu skrúfunnar.