Gert ráð fyrir 672 milljóna króna tapi
Samkvæmt frumvarpi að fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir næsta ár verður 671,9 milljóna króna tap á rekstrinum. Fyrri umræða um áætlunina var í bæjarstjórn í gær, þar sem talað var mjög almennt um rekstur og fjárhag bæjarins en seinni umræða verður á fundi bæjarstjórnar 14. desember.
Rekstur sveitarfélagsins hefur verið erfiður síðustu ár; tapið var 1,6 milljarðar árið 2020 og gert er ráð fyrir að tapið á þessu ári verði rétt rúmur einn milljarður.
Í gær var einnig lögð fram áætlun fyrir árin 2023 til 2025 og skv. henni vænkast hagur bæjarins; gert er ráð fyrir smávægilegum hagnaði árið 2023, 403 milljónum árið 2024 og spáð er rúmlega 800 milljóna króna hagnaði á rekstrinum árið 2025.
- Útsvarsprósentan verður 14,52% á árinu 2022 eins og undanfarin – hámarksútsvarsprósenta sem sveitarfélögum er heimilt að leggja á íbúa sína.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, fylgdi áætluninni úr hlaði á fundi bæjarstjórnar í gær. Hann sagði nokkrar umræður hafa orðið í samfélaginu um umbótaverkefni sem unnið væri að, „sem er vel því við gerð fjárhagsáætlunar þurfum við horfa til aðhalds í rekstri og vissulega er verið að draga úr kostnaði enda lítið annað í boði ef við ætlum að ná rekstrinum í rétt horf,“ sagði Guðmundur.
„Í flestum tilfellum er um að ræða aðgerðir sem koma lítið við almenning en svo eru þarna breytingar á þjónustu sem munu kalla á sterk viðbrögð í samfélaginu.“
Þar átti Guðmundur án efa við m.a. við hugmynd um að sundlauginni við Glerárskóla, Glerárlaug, verði lokað fyrir almenning og einungis notuð sem kennslulaug - sem margir mótmæltu harðlega á samfélagsmiðlum þegar það spurðist út í gær - og að tekin verða upp bílastæðagjöld í hluta miðbjærins á nýjan leik á næsta ári.
Nánar hér um það sem Guðmundur Baldvin sagði í gær.
Hér má sjá frumvarp að fjárhagsáætlun bæjarins 2022 til 2025.