Gengið á „töfratré“ inn í Kjarnaskóg
Í sumar hefur verið unnið að endurbótum á svæðinu við Kjarnakot, þar sem segja má að sé aðalinngangurinn í paradísina Kjarnaskóg. Þar eru bílastæði, snyrtingar eru í Kjarnakoti og líkamsræktaraðstaðan Kjarnaclass í nokkurra skrefa fjarlægð.
Nú er orðið fagurt um að lítast á svæðinu. „Loksins þegar maður lætur eftir sér að helluleggja í skóginum, helluleggur maður náttúrulega tré!“ segir Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, á Facebook síðu félagsins þar sem allar þessar skemmtilegu myndir birtust.
Ingólfur segir: „Á dögunum nutum við einstakrar aðstoðar Hákonar og starfsmanna hans hjá Garði og Hönnun sem á einungis tveimur dögum hellulögðu aðalinngang Kjarnaskógar við Kjarnakot. Töfratré var leiðarljósið og án nokkurra málalenginga birtist töfratréð sem leiða mun gesti skógarins um töfralendur framtíðar. Svo plöntuðum við auðvitað nokkrum alvörutrjám líka. Takk Garður og Hönnun við erum afar ánægð og þið eruð galdrafólk á sviði garðyrkju, það er gaman að gera fínt.“
Sjón er sögu ríkari!