Fara í efni
Fréttir

Geirneglt – bók Óskars Þórs um Tréverk á Dalvík

Bókarkápan og Óskar Þór Halldórsson rithöfundur.

Óskar Þór Halldórsson blaðamaður á Akureyri hefur skrifað sextíu ára sögu byggingarfyrirtækisins Tréverks á Dalvík, Geirneglt – Tréverk 1962-2022. Svarfdælasýsl forlag gefur út. Bókin er um 300 síður í stóru broti og er ríkulega myndskreytt, bæði af gömlum og nýjum myndum.

Í tilkynningu kemur fram að þessi nýja bók verði hvorki seld í bókaverslunum né annars staðar. Hins vegar ætlar fyrirtækið að gefa hana þeim áhuga hafa á þessari sögu, á meðan upplag endist. 

Tréverk var stofnað 1. október 2022. Í aðdraganda 60 ára afmælis félagsins ákváðu stjórnendur þess að láta skrá sögu þess. Fyrstu áratugina voru verkefni Tréverks fyrst og fremst á Dalvík og í nærsveitum en síðustu áratugina hefur fyrirtækið einnig verið í stórum verkefnum utan heimahaganna, fyrst og fremst á Akureyri.

Ingólfur Jónsson var einn fimm stofnenda Tréverks og fyrsti framkvæmdastjóri félagsins.

Stofnendur Tréverks árið 1962 voru Dalvíkingarnir Aðalberg Pétursson, Bragi Jónsson, Hallgrímur Antonsson og Ingólfur Jónsson og Sveinn Jónsson í Kálfsskinni á Árskógsströnd. Ingólfur var fyrsti framkvæmdastjóri Tréverks og gegndi starfinu til ársins 1981 en þá tók Bragi Jónsson við og var framkvæmdastjóri í átta ár, til ársins 1989 er Björn Friðþjófsson, núverandi framkvæmdastjóri, tók við. Auk Björns eru núverandi eigendur Tréverks Guðmundur Ingvason, Hafþór Gunnarsson, Ívar Örn Vignisson, Kristján Elí Örnólfsson og Rögnvaldur Skíði Friðbjörnsson.

Óskar Þór segir að bókin byggi á bæði rituðum og munnlegum heimildum og þá hafi hann fengið aðgang að ómetanlegum myndum frá fyrri tíð. Þá tók Hilmar Friðjónsson nýjar drónamyndir fyrir bókina af mörgum af stærri byggingum sem Tréverk hefur byggt í gegnum tíðina. Á Dalvík má nefna Ráðhús Dalvíkur, Menningarhúsið Berg, Heimavistarhúsið, þar sem hefur verið hótel í mörg undanfarin ár, Sundlaug Dalvíkur og áfast íþróttahús, Dalvíkurskóla og leikskólann Krílakot. Þekktar byggingar Tréverksmanna á Akureyri eru m.a. fjölbýlishúsin við Kjarnagötu 12-16, hluti háskólahúsanna á Sólborg, nýjasta álma Dvalarheimilisins Hlíðar, íþróttahús við Síðuskóla og nýbyggingar Samskipa og Húsasmiðjunnar. Og Tréverk byggði ferðaþjónustuhúsin á Deplum í Fljótum, svo dæmi séu nefnd.

Þessi tvö hús við Austurbrú á Akureyri byggði Tréverk.

„Þetta var mjög skemmtilegt verkefni. Þegar stjórnendur Tréverks báðu mig um að taka saman þessa sögu gat ég ekki sagt nei því ég þekki nokkuð vel til margra þeirra sem hafa í gegnum tíðina starfað hjá þessu fyrirtæki. Það sem líka er áhugavert við þessa sögu er sú staðreynd að félagið hefur starfað í sex áratugi á sömu kennitölunni í bransa sem hefur heldur betur gengið upp og niður í gegnum tíðina. En Tréverk hefur alltaf staðið í fæturna enda hafa menn þar á bæ verið varkárir og alltaf haft að leiðarljósi að hafa fast land undir fótum. Það hefur reynst farsælt. Ég get ekki annað en verið mjög sáttur við útkomuna,“ segir Óskar Þór Halldórsson.

Þessi nýja bók um Tréverk verður ekki seld í bókaverslunum eða annars staðar, sem fyrr segir. Hins vegar ætlar fyrirtækið að gefa hana þeim áhuga hafa á þessari sögu, á meðan upplag endist. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Tréverk á Dalvík og einnig verður bókin afhent í versluninni Víkurkaup á Dalvík frá og með nk. mánudegi, 27. nóvember. Þann dag verða Óskar Þór og stjórnendur Tréverks í Víkurkaup kl. 15-17 og árita og afhenda bókina.

Tréverk stýrði byggingu nýja Húsasmiðjuhússins á Akureyri.

Tréverk byggði hluta háskólahúsanna á Sólborg.