Geirdís Hanna komin með nýtt hjólhýsi

Geirdís Hanna Kristjánsdóttur, sem missti heimili sitt í eldsvoða aðfaranótt 8. janúar í hjólahýsabyggðinni við Sævarhöfða í Reykjavík, hefur nú eignast nýtt heimili. Eins og Akureyri.net greindi frá í janúar settu tvær konur á Akureyri söfnun af stað fyrir Geirdísi svo hún gæti keypt sér nýtt hjólhýsi. Alls söfnuðust 1.327.300 krónur í söfnuninni og gengu þeir peningar upp í hjólhýsakaupin.
Geirdís sem er mörgum Akureyringum að góðu kunn, enda bjó hún þar í rúmlega 30 ár áður, mun sofa sína fyrstu nótt í nýja hjólhýsinu í kvöld. Hún setti þessi skilaboð á Facebook síðu sína í morgun:
„Góðan dag krúttkögglar og dúlludúskar.Með hjálp dásamlegs fólks allstaðar að erum við Tinna að eignast nýtt heimili. Þetta eru búnar að vera erfiðar og taugastrekkjandi vikur sem loks eru liðnar undir lok. Ég get byrjað að púsla lífi mínu aftur saman og koma því í eðlilegt horf. Takk öll sem lögðuð ykkar af mörkum til að þetta geti orðið að veruleika . Takk allir vinir og fjölskylda sem hafið skotið yfir okkur þaki þennan tíma. Takk öll sem hafið stappað í mig stálinu og sýnt mér velvild, umhyggju og kærleik. Kærleiksknús útí daginn ykkar frá Kærleiksbirninum. Það er þakklátur, hrærður og auðmjúkur kærleiksbjörn sem fær að sofa í sínu eigin rúmi í nótt.“