Fara í efni
Fréttir

Gefur afgangsmat af Barr á kvöldin

Silja Björk Björnsdóttir á kaffihúsinu Barr í Hofi. Ljósmynd: Margrét Þóra Þórsdóttir.

Silja Björk Björnsdóttir, sem rekur kaffihúsið Barr í menningarhúsinu Hofi á Akureyri, tók nýlega upp á því að gefa mat sem ekki selst á veitingastaðnum. Maturinn er skilinn eftir í bökkum fyrir utan húsið á kvöldin og hún segir þörfina greinilega mikla; yfirleitt sé allt farið að morgni.

Morgunblaðið greinir frá þessu í dag. „Við setj­um mat­inn út í bakka hér fyr­ir utan kaffi­húsið á milli klukk­an 6 og 7 á kvöld­in og það er yf­ir­leitt allt farið þegar við mæt­um kl. 8 næsta morg­un. Þörf­in er greini­lega mik­il,“ segir Silja Björk í samtali við Margréti Þóru Þórsdóttur, blaðamann.

Silja lætur vita hvað er í boði á fés­bók­ar­hópn­um Mat­ar­gjaf­ir á Ak­ur­eyri og ná­grenni. Hún tók við rekstri kaffi­húss­ins í Hofi í byrj­un júní en hafði lengi starfað inn­an þjón­ustu- og veit­inga­geir­ans í Reykja­vík. „Þeir sem starfa inn­an þess geira taka fljótt eft­ir því hversu miklu er hent af mat­væl­um, það sem ekki selst yfir dag­inn end­ar yf­ir­leitt í rusl­inu. Það er því miður lenska í þess­um bransa. Ef þú get­ur ekki selt mat­inn, þá á að henda hon­um. En það er svo mik­il tíma­skekkja og óþarfi. Fyr­ir sunn­an tók­um við okk­ur til og fór­um að keyra af­ganga út, t.d. í Kvenna­at­hvarfið og til Rauða kross­ins og fleiri sam­taka, en það eru eng­in sam­tök hérna á Ak­ur­eyri sem taka við svona mat­ar­gjöf­um, ekki svo ég viti,“ seg­ir Silja Björk í Morgunblaðinu.

Hún hvet­ur aðra til að hugsa áður en þeir henda, reyna frek­ar að láta af­gangs­mat­væli ganga áfram, „en það seg­ir sig sjálft að við þurf­um að finna betri leið til að deila þessu út, það geng­ur ekki á köld­um vetr­ar­kvöld­um að geyma mat­væli hér fyr­ir utan húsið. Það er ósk­andi að ein­hver sam­tök eða fé­lög gætu tekið þetta sam­fé­lags­verk­efni að sér,“ seg­ir hún. 

Grein Margrétar Þóru hefur nú verið birt í heild á Fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is. Smellið hér til að lesa hana.