Gefur afgangsmat af Barr á kvöldin
Silja Björk Björnsdóttir, sem rekur kaffihúsið Barr í menningarhúsinu Hofi á Akureyri, tók nýlega upp á því að gefa mat sem ekki selst á veitingastaðnum. Maturinn er skilinn eftir í bökkum fyrir utan húsið á kvöldin og hún segir þörfina greinilega mikla; yfirleitt sé allt farið að morgni.
Morgunblaðið greinir frá þessu í dag. „Við setjum matinn út í bakka hér fyrir utan kaffihúsið á milli klukkan 6 og 7 á kvöldin og það er yfirleitt allt farið þegar við mætum kl. 8 næsta morgun. Þörfin er greinilega mikil,“ segir Silja Björk í samtali við Margréti Þóru Þórsdóttur, blaðamann.
Silja lætur vita hvað er í boði á fésbókarhópnum Matargjafir á Akureyri og nágrenni. Hún tók við rekstri kaffihússins í Hofi í byrjun júní en hafði lengi starfað innan þjónustu- og veitingageirans í Reykjavík. „Þeir sem starfa innan þess geira taka fljótt eftir því hversu miklu er hent af matvælum, það sem ekki selst yfir daginn endar yfirleitt í ruslinu. Það er því miður lenska í þessum bransa. Ef þú getur ekki selt matinn, þá á að henda honum. En það er svo mikil tímaskekkja og óþarfi. Fyrir sunnan tókum við okkur til og fórum að keyra afganga út, t.d. í Kvennaathvarfið og til Rauða krossins og fleiri samtaka, en það eru engin samtök hérna á Akureyri sem taka við svona matargjöfum, ekki svo ég viti,“ segir Silja Björk í Morgunblaðinu.
Hún hvetur aðra til að hugsa áður en þeir henda, reyna frekar að láta afgangsmatvæli ganga áfram, „en það segir sig sjálft að við þurfum að finna betri leið til að deila þessu út, það gengur ekki á köldum vetrarkvöldum að geyma matvæli hér fyrir utan húsið. Það er óskandi að einhver samtök eða félög gætu tekið þetta samfélagsverkefni að sér,“ segir hún.
Grein Margrétar Þóru hefur nú verið birt í heild á Fréttavef Morgunblaðsins, mbl.is. Smellið hér til að lesa hana.