Gefa Norðurþingi ljósmynd af Húsavík
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri hélt í gær til fundar við Kristján Þór Magnússon sveitarstjóra Norðurþings og færði sveitarfélaginu Norðurþingi að gjöf forláta litaða ljósmynd af Húsavík. Myndin hafði verið gefin Akureyrarbæ árið 1962 í tilefni þess að þá voru 100 ár liðin frá því Akureyri fékk kaupstaðaréttindi. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar.
Á myndinni eru tveir silfurskildir og í annan þeirra er grafin áletrunin:
„Yngsti kaupstaður Norðurlands, Húsavík, árnar elzta kaupstaðnum, Akureyri, höfuðstað Norðurlands, allra heilla á aldarafmæli kaupstaðarréttinda hans. 29. ágúst 1962. Bæjarstjórn Húsavíkur".
Í innrömmuðu skjali sem fylgdi gjöf Akureyrarbæjar til Húsavíkur og Norðurþings stendur orðrétt:
„Elsti kaupstaður Norðurlands, Akureyri, árnar yngsta kaupstaðnum, Húsavík, allra heilla á 70 ára afmæli kaupstaðarréttinda hans 1. janúar 2020.
Sveitarfélögin eru bæði í fararbroddi þegar kemur að endurvinnslu og endurnýtingu. Því er við hæfi að Akureyrarbær endurnýti gjöf sem bæjarstjórn Húsavíkurkaupstaðar færði Akureyri, höfuðstað Norðurlands, á aldarafmæli kaupstaðarréttinda Akureyrar 29. ágúst 1962. Þessari fallegu ljósmynd verður vonandi fundinn góður staður í Stjórnsýsluhúsi Norðurþings á Húsavík þar sem hún mun sóma sér hið besta.
Með árnaðaróskum og þökkum fyrir blómlegt og gott samstarf."