Fara í efni
Fréttir

Gátum stundum bara sagt: guð hjálpi þér!

Ute Helme fékk sér tíu dropa af kaffi, eftir að hún fékk fyrsta skammtinn af bóluefninu gegn Covid á Akureyri í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Alls komu 200 skammtar af bóluefninu frá Pfizer gegn Covid-19 til Akureyrar í dag. Íbúar á öldrunarheimilum bæjarins, Hlíð og Lögmannshlíð, auk Grenilundar á Grenivík, eru um 170 og verða þeir allir bólusettir í dag. Hjúkrunarfræðingar á Hlíð sáu um að blanda efnið, en fimm skammtar fást úr einni lítilli glerflösku og mikil spenna var í loftinu meðan sú vinna stóð yfir. Allt gekk auðvitað eins og í sögu og Ute Helme Stelly, 78 ára íbúi í dvalarrými á Hlíð, var sprautuð fyrst allra Akureyringa eins og fram kom hér á Akureyri.net fyrr í dag.

Síðar í dag stendur til að bólusetja nokkra starfsmenn heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri, þá sem eru í „framlínunni“ eins og það er kallað. Jón Torfi Halldórsson, yfirlæknir heilsugæslustöðvarinnar, beið ferðbúinn og fékk nokkra skammta eftir að blöndun lauk á Hlíð í dag og hugðist aka til Grenivíkur, þar sem níu manns biðu bólusetningar á Grenilundi.

Ute Helme Stelly starfaði í áratugi sem hjúkrunarkona og sagðist í dag vona að allir Íslendingar myndu þiggja bólusetningu, því það væri eina vörnin sem til væri. Hún myndi eftir þeim tíma þegar ekki voru til nein bóluefni og fólk dó úr sjúkdómum, sem nú hefur verið að mestu verið útrýmt. Nefndi að foreldrar sem ekki vildu láta sprauta börn sín í dag hefðu örugglega ekki séð börn deyja. Það væri hryllilega sorglegt. „Við gátum stundum ekki gert neitt annað en sagt: guð hjálpi þér! Það var skelfilegt,“ sagði Ute.

„Kærar þakkir fyrir þetta. Þetta er æðisleg upplifun,“ sagði Ute eftir að Bryndís Þórhallsdóttir sprautaði hana. „Ég er mjög þakklát fyrir að þeir hafi framleitt þetta bóluefni á svona stuttum tíma með samvinnu allra manna í heiminum.“

„Húrra! þetta var æðisleg tilfinning“

Hjúkrunarfræðingar sáu um að blanda bóluefnið á Hlíð í dag, áður en hafist var handa við að bólusetja íbúana.

Bryndís Björg Þórhallsdóttir sprautaði Ute Helme Stelly, fyrsta Akureyringa.

Ute Helme ræðir við Ágúst Ólafsson, fréttamann Ríkisútvarpsins, eftir að hún var bólusett.

Jón Torfi Halldórsson, yfirlæknir heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri, um það bil að leggja í hann til Grenivíkur með bóluefnið.