Gangið „úr myrkrinu í ljósið“ á morgun
Árleg ganga, Úr myrkrinu í ljósið á vegum Pieta samtakanna, verður með óhefðbundnu sniði þetta árið vegna samkomutakmarkana. Samtökin hvetja fólk til að sameinast við sólarupprás á morgun til að minna á að alltaf birti til eða fara í göngutúr hvenær sem er dagsins.
Gangan er í minningu þeirra sem látist hafa í sjálfsvígi og til að efla von þeirra sem eiga um sárt að binda vegna vanlíðanar, sjálfsvígshugsana og sjálfsskaða. Viðburðurinn er einnig til styrktar Píeta samtökunum sem bjóða ókeypis úrræði fyrir fólk í sjálfsvígshugleiðingum, við sjálfsskaða og veita aðstoð fyrir aðstandendur og þá sem misst hafa ástvini í sjálfsvígi.
„Við hvetjum alla til að búa til sinn eigin viðburð, en undanfarin ár höfum við gengið 5 kílómetra víða um land við sólarupprás, sem er um miðja nótt,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.
„Við hvetjum alla til að fara út að ganga, hlaupa eða hjóla, fara á rúntinn og skoða sólarupprásina, kíkja á gosið og jafnvel ganga á fjöll, dansa eða bara vera. Sameinumst í hugsun og verki.“
Hægt er að búa til viðburði á miðasöluvefnum tix.is og styrkja samtökin um leið. Smellið hér til þess.
Nánar upplýsingar um samtökin hér