Fara í efni
Fréttir

Gangið „úr myrkrinu í ljósið“ á morgun

Árleg ganga, Úr myrkrinu í ljósið á vegum Pieta samtakanna, verður með óhefðbundnu sniði þetta árið vegna samkomutakmarkana. Samtökin hvetja fólk til að sameinast við sólarupprás á morgun til að minna á að alltaf birti til eða fara í göngutúr hvenær sem er dagsins.

Gangan er í minningu þeirra sem lát­ist hafa í sjálfs­vígi og til að efla von þeirra sem eiga um sárt að binda vegna van­líðanar, sjálfs­vígs­hugs­ana og sjálfsskaða. Viðburðurinn er einnig til styrkt­ar Píeta sam­tök­un­um sem bjóða ókeyp­is úrræði fyr­ir fólk í sjálfs­vígs­hug­leiðing­um, við sjálfsskaða og veita aðstoð fyr­ir aðstand­end­ur og þá sem misst hafa ást­vini í sjálfs­vígi.

„Við hvetjum alla til að búa til sinn eigin viðburð, en undanfarin ár höfum við gengið 5 kílómetra víða um land við sólarupprás, sem er um miðja nótt,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

„Við hvetjum alla til að fara út að ganga, hlaupa eða hjóla, fara á rúntinn og skoða sólarupprásina, kíkja á gosið og jafnvel ganga á fjöll, dansa eða bara vera. Sameinumst í hugsun og verki.“

Hægt er að búa til viðburði á miðasöluvefnum tix.is og styrkja samtökin um leið. Smellið hér til þess.

Nánar upplýsingar um samtökin hér