Fara í efni
Fréttir

„Gamli Landsbankinn“ fluttur með í Hofsbótina

Arnar Páll Guðmundsson, útibússtjóri Landsbankans á Akureyri, við málverk Sigfúsar Halldórssonar frá 1973 af Ráðhústorgi, þar sem myndin hangir nú á áberandi stað í nýja útibúinu við Hofsbót. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Landsbankinn á mikinn fjölda málverka sem m.a. eru varðveitt í útibúinu á Akureyri. Sum sem þar hafa verið til sýnis eða í geymslu voru flutt yfir í nýja útibúið við Hofsbót, sem opnað var á föstudaginn, en önnur send suður í höfuðstöðvarnar, þar sem ekki er rými fyrir þau lengur í húsnæði bankans á Akureyri.

Arnar Páll Guðmundsson, útibússtjóri, segist hafa lagt mikla áherslu á að eitt tiltekið málverk yrði hengt upp í Hofsbótinni og skyldi engan undra. Þar er um að ræða skemmtilega mynd Sigfúsar Halldórssonar frá 1973 af Ráðhústorgi þar sem Landsbankahúsið fallega blasir við. Einnig má sjá blaðavagn Pálma Ólafssonar, eitt af kennileitum miðbæjarins til fjölda ára. Það er gráa skýlið fyrir miðri mynd; viðskiptavinur virðist þar teygja sig inn um lúguna eftir blaði en Pálmi seldi dagblöðin – sem voru mörg gefin út á Íslandi í þá daga – og tímarit af ýmsu tagi.

Sigfús Halldórsson var kunnur myndlistarmaður, tónskáld og dægurlagahöfundur. Þekktasta lag hans er Litla flugan sem hvert mannsbarn kunni á árum áður. Sigfús kenndi um tíma teikningu við Langholtsskóla í Reykjavík og svo skemmtilega vill til að einn nemenda hans um 1980 var ungur drengur, Arnar Páll Guðmundsson, nú útibússtjóri Landsbankans á Akureyri ... 

Útibúið í Hofsbót var opnað á föstudaginn eins og áður hefur komið fram. Fyrsti viðskiptavinurinn kom þar askvaðandi inn nokkrum sekúndum eftir klukkan 10, þegar dyrnar voru opnaðar; Bergþór Bóas Hauksson, 12 ára, ásamt móður sinni, Ingu Bryndísi Bjarnadóttur.

Marta Vilhelmsdóttir fjármálaráðgjafi, Bergþór Bóas Hauksson, fyrsti viðskiptavinurinn í nýju útibúi Landsbankans og móðir hans, Inga Bryndís Bjarnadóttir.

Málverk Sigfúsar Halldórssonar frá 1973 af Ráðhústorgi. Myndin hangir nú á áberandi stað í nýju útibúi Landsbankans við Hofsbót.