Fara í efni
Fréttir

Góðar þjóðleiðir eins og mataruppskriftir

Einar stillti komu sína til Akureyrar af til að hitta á sjónvarpsfréttirnar hjá Rúv. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Einar Skúlason gekk í hlað á Akureyri um sjöleytið í gærkvöld, klyfjaður bakpoka sem meðal annars geymdi jólakort sem honum var treyst til að ganga með frá Seyðisfirði til Akureyrar. 

Gangan gekk framar vonum, tók styttri tíma en björtustu vonir Einars gerðu ráð fyrir. Akureyri.net tók á móti Einari þegar hann var á leið meðfram Drottningarbrautinni í gærkvöld. Einar hefur gengið áður gamlar þjóðleiðir, á Vestfjörðum og víðar, en ekki áður með söfnun og góðgerðarstarfsemi í huga. Kortaburðurinn og rafrænar kveðjur voru hluti af söfnun hans til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis.

Marta Kristín Rósudóttir, verkefnastjóri hjá KAON, bauð Einari, fólkinu sem fylgdi honum síðasta spölinn og fjölmiðlafólki sem var mætt til að taka á móti honum upp á rjúkandi heitt kakó með rjóma á Ráðhústorginu. Hún upplýsti að söfnunin stæði í rúmum 800 þúsund krónum í gærkvöld, en eftir viðtal í beinni í sjónvarpsfréttum Rúv í gærkvöld og umfjöllun á Akureyri.net og víðar tók söfnunin kipp og fór eitthvað yfir milljónina.

Enn er mögulegt að styrkja verkefnið með frjálsum framlögum og að sjálfsögðu hægt að styrkja KAON hvenær sem er, óháð því hvort Einar gengur eða ekki. Hægt er að senda hvatningar- og jólakveðju sem birtist á þessari síðu. Frjáls framlög eru með slíkum kveðjum.

Greiðslur fara þannig fram að millifært er á eftirfarandi reikning í eigu Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis:

  • Reikningur: 0302 - 13 - 301557
  • Kennitala: 520281-0109


Marta Kristín Rósudóttir, verkefnastjóri hjá KAON. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Gangan núna og fyrri göngur Einars markast nokkuð af áhuga hans á sögunni, ekki aðeins af áhuga fyrir því að ganga. „Já, alveg klárlega. Ég hef mikinn áhuga á gömlu þjóðleiðunum út af sögunni. Af því að fólk hefur verið þar á ferli og notað þær. Góðar þjóðleiðir eru bara eins og mataruppskriftir, þær eru margreyndar og prófaðar í gegnum aldirnar. Stundum hugsar maður um það, hvað voru hinir að hugsa þegar þeir fóru þessa leið einhvern tímann, hvert voru þeir að fara, hvernig voru þeir klæddir og hvað voru þeir að borða?“

Ástríða Einars er í bland gangan sjálf og söguhliðin því hann elskar að ganga gamlar þjóðleiðir. Gangan núna var gömul póstleið frá Seyðisfirði til Akureyrar. „Þetta fer saman. Mér finnst skemmtilegra að ganga gamlar leiðir en að fara upp á einhverja fjallstoppa því það er engin saga þar. En mér finnst gaman líka að fara upp á fjöll,“ segir Einar um ástríðu sína fyrir göngunni og hvernig hann velur leiðir.

Þegar Einar var spurður að göngu lokinni hvort hann hafi á þessari ellefu daga göngu hugsað mikið um næsta verkefni, næstu göngu sagði hann fyrst: „Nei, og þó...“ En svo leiðrétti hann sig og bætti við að hann hefði reyndar velt því fyrir sér og nefndi að hann langaði til að ganga úr Eyjafirði fyrir að Hólum í Hjaltadal og svo suður yfir Stórasand og koma niður í Borgarfjörð á leið áfram lengra suður á bóginn. 


Þessi mynd gæti heitið Beðið eftir beinni. Einar og fylgdarlið voru mætt í miðbæinn og biðu eftir rétta augnablikinu til að ganga inn í beina útsendingu sjónvarpsfrétta hjá Rúv. Mynd: Haraldur Ingólfsson.