Gamla náðhúsið hluti fasteignasafns Regins
Fasteignafélagið Reginn hefur keypt rýmið undir kirkjutröppunum, þar sem almenningssalerni Akureyrarbæjar voru í eina tíð. Þar var skellt í lás fyrir margt löngu en bæjarbúar komnir yfir miðjan aldur muna margir vel þá nauðsynlegu starfsemi og Rögnvald kammerráð, sem réð ríkjum á náðhúsinu fyrir hönd bæjarfélagsins. Blessuð sé minning hans.
En hvað hyggst virðulegt fasteignafélag gera með plássið undir tröppunum? Ætli standi til að opna þar náðhús fyrir almenning á ný?
Nei, ekki er á döfinni að hefja slíka starfsemi aftur, að sögn Helga S. Gunnarssonar, forstjóra Regins.
Þannig er mál með vexti að Reginn á húseignina Hafnarstræti 87-89 þar sem Hótel Kea hefur verið rekið til áratuga. Undir hótelinu er kjallari sem nær framundir götu að hluta og er m.a. undir gömlu klósettunum.
Endurnýja kirkjutröppurnar
„Samkvæmt samningi við Akureyrarbæ tökum við að okkur að endurnýja kirkjutröppurnar fyrir ofan gömlu klósettin, því þær leka. Þarna eru þær inni á okkar lóð,“ segir Helgi við Akureyri.net. „Hugmyndin er svo að byggja aðeins við, bæði út á bílastæðið og inn í portið á bak við hótelið. Þetta er skemmtilegur staður, við sjáum mikil tækifæri þarna og ætlum að gera skemmtilega hluti,“ segir forstjórinn og nefnir að þarna mætti til dæmis bjóða upp á ýmis konar þjónustu og veitingar. Reginn reki þó ekki hótelið svo þetta komi ekki í ljós strax.
„Gilið er orðið mjög flott að norðanverðu en það vantar að styrkja það sunnan megin. Þetta gæti orðið fyrsti vísirinn að því,“ segir forstjórinn.
Í Gilinu í dag. Þarna var gengið var inn á almenningssalernin á árum áður, um dyrnar framan við rauða bílinn og þann hvíta. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.