Galin aðferðarfræði, engin öryggisáætlun
Umferðaröryggi í Oddeyrargötu hefur verið til umfjöllunar á Akureyri.net síðustu daga. Í dag skoðum við aðferðafræðina sem notuð er við ákvarðanir um framkvæmdir til að auka umferðaröryggi.
- Í FYRRADAG – „Ég ætla að bjarga þessu mannslífi“
- Í GÆR – Rugluð tilhugsun að þessi umferð bruni hér í gegn
Aðalsteinn Svan Hjelm, íbúi við Oddeyrargötuna sem við höfum rætt við um þetta málefni, segist hafa misst andlitið þegar hann komst að því eftir hvaða aðferðum er unnið. Hér sé notuð úrelt aðferðafræði sem eigi alls ekki við í þéttbýli. Að auki hafi svo gleymst að útbúa umferðaröryggisáætlun sem kynnt var af þáverandi bæjarstjóra á fjölmiðlafundi 2009 að ákveðið hefði verið að gera – sjá frétt á vef Akureyrarbæjar.
„Við höfum notast við tölfræði úr þessum mælingum,“ segir hann og vísar þar til gagna úr hraðamælingum sem eru til hjá Akureyrarbæ. „Við höfum skoðað miklar rannsóknir sem hafa verið gerðar erlendis og hér heima á umferðaröryggi almennt. Ég veit og hef séð það að aðferðarfræði sem er notuð hér á Akureyri, hún er úrelt. Við höfum verið að benda þeim á það, og hún er bara stórhættuleg og það er annað efni sem er grafalvarlegt að bærinn sé ekki að bregðast við.“ Hér vísar hann í svokallaða 85% aðferð út frá umferðarhraða og þörf á úrbótum. Sjá útskýringu á 85% aðferðafræðinni neðst í greininni.
„Þetta gróf ég upp og ég bara missti andlitið. Þetta er aðferðafræði sem hefur verið notuð erlendis í áratugi, mikið í Bandaríkjunum þar sem er mikið víðerni, notað á þjóðvegum og fleira. Til þess að ákveða hámarkshraða í götu er umferð leyft að flæða óheft og sá hraði sem 85% af þessum ökumönnum aka á og fyrir neðan, það er hraðinn sem ræður hámarkshraðanum í götunni. Þarna ertu bara að spyrja bílstjóra, en ekkert annað tekið inn í þessa aðferðafræði, eins og hvað íbúarnir segja eða gangandi og hjólandi vegfarendur. Fyrst og fremst á alls ekki að nota þessa aðferðafræði innanbæjar. Svíar eru löngu hættir að nota þetta, Norðmenn líka, Danir, en einhverra hluta vegna er þetta bara útgangspunkturinn hjá þeim starfsmönnum bæjarins sem eru að forgangsraða hér innanbæjar. Þeir nota þessa 85% aðferð, sem þýðir það að þeir eru nánast eingöngu að vinna í stofnbrautum bæjarins, eins og í raun og veru aðferðafræðin bendir á. Þeir eru alltaf að reyna að slökkva elda þar sem í raun og veru þarf jafnvel mun minna á úrbótum að halda, þó ég efist ekki um þær framkvæmdir. Það býr fólk við stofnbrautir, til dæmis við Þórunnarstræti, en þar ertu með gangstéttir sitt hvoru megin við, þetta eru víðar götur, þú sérð vel til allra átta. Þetta er bara galin aðferðafræði hérna innanbæjar þegar kemur að þrengri íbúagötum.“
Aðalsteinn kveðst ekki vita hvort þessi aðferðafræði sé bundin við Akureyri hér á landi. „En í mínum samskiptum og þessari tölfræði sem ég fæ frá bænum og einmitt í samtölum sem ég hef átt persónulega við þessa einstaklinga þá vísa þeir alltaf í þessa 85% reglu. Þeir segja bara: 85% vilja aka hraðar en núverandi hámarkshraði segir til um og þess vegna er þessi gata í lagi. Þessi aðferðafræði er galin, það eru allir sammála um þetta um allan heim, hún þykir einfaldlega ekki henta vel almennt og hvað síst innanbæjar þar sem aðrir en bara bílar eiga í hlut.“ Hann segir einfaldlega eitthvað athugavert í kerfi sem noti þessa aðferðafræði. Út frá henni sé honum tjáð að umferðin um Oddeyrargötuna sé í góðu lagi, „en við erum að verða vitni að einhverri algjörlega sturlaðri umferð þarna.“
Gleymdist að gera umferðaröryggisáætlun
„Umferðaröryggisáætlun er ekki til,“ segir Aðalsteinn. „Það var fyrst skrifað undir 2009, ef ég man rétt. Þá var haldinn blaðamannafundur, bæjarstjórinn kvittaði undir að það ætti að búa til umferðaröryggisáætlun, líkt og er búið að gera held ég í flestum sveitarfélögum landsins. En svo var því bara stungið undir stól þangað til að við fórum að pönkast í öllum hérna innanbæjar í fyrra. Þá kom það á daginn og við heyrðum í bæjarstjóra, sannarlega hefur það komið á daginn að þetta bara gleymdist. Akureyrarbær, þetta stóra sveitarfélag, er ekki með umferðaröryggisáætlun, það er engin framtíðarsýn, engin plön, það eru engin viðmið, bara 85% reglan sem er alveg galin.“
Aðalsteinn segist smátt og smátt hafa verið að uppgötva þessar upplýsingar og átta sig á stöðunni – varðandi umferðaröryggisáætlunina og 85% regluna, svo dæmi séu tekin. „Þetta skýrir allt saman,“ segir hann um stöðu mála og skort á úrbótum við Oddeyrargötuna í gegnum árin.
„En þegar umferðaröryggisáætlun er komin þá ertu með verkfræðinga á þessu sviði sem hafa gríðarlega reynslu af álíka úrlausnarefnum. Þeir geta komið með eina stóra lausn sem þrengir að umferðinni og þá fer umferðin meira inn á Þórunnarstræti eða hvernig sem við viljum hafa það. Það er miklu heildstæðari nálgun sem allir íbúar bæjarins munu njóta góðs af.“
Oddeyrargatan augljóslega færð neðst í bunkann
Hann kveðst ekki hafa verið að rífast eða karpa. Oddeyrargötusamtökin hafi stundað málefnalega gagnrýni. „Við höfum notað þá lógík, ekkert að rífast eða karpa, við viljum bara fá upplýsingar. Ef menn eru að forgangsraða, hvar er sú gata sem er sambærileg við okkar. Hvar er hún, þessi verri gata sem er alltaf forgangsraðað? Því við erum augljóslega alltaf færð neðst í bunkann hérna í Oddeyrargötunni. En svo einmitt kemur í ljós, þessi 85% regla útskýrir þetta allt saman. Þetta eru bara ótal aðrar sem eru verri en okkar gata, af því að menn eru bara að keyra hérna á mjög nálægt 85% mörkunum og það er bara allt í góðu samkvæmt þessari aðferðafræði. Ég hef kallað eftir mælingum því ég er með mælingar úr Oddeyrargötu og ég hef beðið bæinn oft um þessi gögn sem eiga að vera opinber og þeim ber skylda að senda þessi gögn á okkur. Hvar er sú gata þar sem hraðinn er meiri en í okkar götu? Ég fæ ekki svör við því,“ segir Aðalsteinn Svan Hjelm, baráttumaður fyrir bættu umferðaröryggi í Oddeyrargötu.
_ _ _ _ _
TIL ÚTSKÝRINGAR
Á vefsíðu samtaka sem nefnast Strong Towns er 85% aðferðarfræðin útskýrð og bent á takmarkanir hennar. Skýringarmyndin er lauslega þýdd úr sömu grein. Sjá hér: Understanding the 85th Percentile Speed (strongtowns.org)
- Aðferðafræðin sem Aðalsteinn Svan nefnir og er meðal annars útskýrð í greininni á strongtowns.org er í stuttu máli þannig að til að ákveða eðlilegan hámarkshraða fær umferð að flæða óheft um ákveðinn veg eða götu og gert er ráð fyrir að ökumenn aki á þeim hraða sem þeir telja öruggan. Hraði allra bifreiðanna er mældur. Hröðustu 15% bílanna eru tekin út úr dæminu og sá hraði sem hraðasti bíll sem þá er eftir er skilgreindur sem eðlilegur hámarkshraði – það er sá hraði sem 85% mældra bíla eru á eða innan við.
- Við getum tekið sem dæmi að þetta séu þúsund bílar og þá yrðu hröðustu 150 bílarnir teknir frá og sá hraði sem 151. hraðasta bílnum er ekið á er þá skilgreindur sem eðlilegur hámarkshraði.
- Sú ályktun eða forsenda sem býr að baki 85% reglunni er að flestir ökumenn muni aka á hraða sem þeir telja öruggan. Hraðatakmörk sem sett eru fyrir ofan eða neðan 85% línuna muni skapa hættu vegna hraðamismunar þar sem sumir ökumenn haldi sig algjörlega innan laganna á meðan aðrir láta reyna á efri mörkin.