Gáfu heilmikinn pappír sem nýtist öðrum
Starfsmenn Prentmets - Odda á Akureyri tóku sig til um daginn og gáfu mikið magn af pappír sem nýtist fyrirtækinu ekki lengur. Hann kom í góðar þarfir annars staðar.
„Þetta er pappír sem hafði safnast upp í gegnum tíðina; sumt er alveg frá því POB var og hét, sumt frá Alprenti og svo Ásprenti,“ sagði Gunnhildur Helgadóttir, útibússtjóri Prentmets - Odda, við Akureyri.net, en fyrirtækið keypti eignir þrotabús Ásprents - Stíls fyrr á árinu.
„Þegar við fórum að taka til í öllum kompum kom í ljós alls konar pappír sem við getum ekki notað lengur, svo við ákváðum að gefa hann í stað þess að henda. Vildum leyfa öðrum að njóta þess sem við þurfum ekki eða getum ekki nýtt okkar. Lituð karton voru vinsælust en hér var líka mikið af afskurði og öðrum afgöngum sem koma í góðar þarfir annars staðar,“ sagði Gunnhildur.
Margir gripu tækifærið fegins hendi, starfsfólk skóla og fleiri. „Okkur vantar alltaf pappír, þetta var því mjög gott tækifæri,“ sagði Hugrún Hermannsdóttir, leikskólastjóri á Álfasteini í Hörgársveit, sem var á staðnum þegar blaðamann bar að garði. Þær Erika Lind Isaksen, sem kennir myndmennt í skólanum, voru hæstánægðar. „Það hefur orðið gríðarleg fjölgun í sveitarfélaginu á síðustu árum, mikið er um að barnafólk flytji þangað og leikskólinn hefur því stækkað hratt á stuttum tíma. Nú eru 60 börn hjá okkur,“ sagði Hugrún. „Ég er ánægð með fólkið hjá Prentmeti, þetta er skemmtilegt fyrir okkur vegna þess að við hugsum mikið um endurvinnslu – og svo er þetta auðvitað mikil búbót.“