Fara í efni
Fréttir

Gáfu blóðskilunardeild SAk hjólastólavigt

Glæsileg gjöf. Frá vinstri: Hugrún M. Magnúsdóttir og Elías Örn Óskarsson, fulltrúar Oddfellow stúkanna á Akureyri, Sólveig Tryggvadóttir og Freyja Sigursveinsdóttir, hjúkunarfræðingar á blóðskilunardeild sjúkrahússins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Oddfellowstúkurnar á Akureyri færðu blóðskilunardeild Sjúkrahússins á Akureyri fullkomna hjólastólavigt að gjöf á dögunum. Sólveig Tryggvadóttir, hjúkrunarfræðingur á deildinni, segir gjöfina afar kærkomna.

Vigtin, sem er mjög fullkomin, kostar um 800.00 krónur og Sólveig segir hana einnig nýtast öðrum deildum á stofnuninni. Vigta þarf sjúklinga fyrir hverja blóðskilun og það hefur reynst þeim erfitt sem eru í hjólastól að nota vigtina sem notuð hefur verið árum saman. Nýja vigtin er þannig útbúin að hægt er að skanna kort hvers og eins sjúklings þannig að upplýsingar vistast sjálfkrafa í sjúkraskrá hans.

  • Blóðskilunarmeðferð við langvarandi nýrnabilun hófst snemma á sjöunda áratugnum, fyrsta skilunin hérlendis var framkvæmd 1968 en fyrst 18. mars árið 2015 á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
  • Fólk kemur að jafnaði í meðferð þrisvar sinnum í viku, þrjár til fjórar klukkustundir í senn.
  • Á SAk hafa 18 manns á aldrinum 35-87 ára verið í reglulegri blóðskilun, átta á þessu ári.

Sólveig Tryggvadóttir segir mikilvægt að færa þjónustuna nær sjúklingum í heimabyggð. Blóðskilun sé erfitt að sækja milli landshluta og mikill kostnaður sparist við að fækka ferðum sjúklinga til Reykjavíkur. Fjölþættur ávinningur sé af því að hafa þessa þjónustu í heimabyggð, fyrst og fremst fyrir sjúklingana og aðstandendur þeirra.