Gáfu 323 þúsund til hjálparstarfs í Úkraínu
Skemmtifélag Háskólans á Akureyri, Stúdentafélagið og starfsfólks Kaffi Hóls lögðu saman krafta sína og söfnuðu fé til hjálparstarfs í Úkraínu. Alls söfnuðust 323.120 krónur sem voru formlega afhentar Rauða krossinum við litla athöfn í Háskólanum á Akureyri í gær.
Það var Sólveig Birna Elísabetardóttir, formaður félags stúdenta (SHA) sem afhenti Róberti Theodórssyni skjalið, en Róbert er verkefnafulltrúi í málefnum flóttafólks hjá Rauða krossinum.
Auk Róberts voru mætt Sóley Björk Stefánsdóttir, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum við Eyjafjörð, Hanna Björg Guðmundsdóttir, fulltrúi Skemmtifélags HA, Kristín Geirsdóttir, þjónustustjóri Kaffi Hóls, Pálmey Kamilla Pálmadóttir verkefna- og vefstjóri, Gunnar Rúnar Gunnarsson, forstöðumaður fasteigna og Jóna S. Friðriksdóttir, verkefnastjóri fasteigna.
Þess má geta að samkvæmt frétt á heimasíðu HA geta stúdentar við sálfræðideild Háskólans á Akureyri nú valið námskeið sem gefur 6 ECTS einingar fyrir þátttöku í sjálfboðastarfi Rauða krossins við Eyjafjörð.
Um 2.300 sjálfboðaliðar á Íslandi
Á heimasíðu Rauða krossins kemur fram að á Íslandi starfa nú um 2300 sjálfboðaliðar við fjölbreytt verkefni og að flestir geti fundið verkefni og nýtt hæfni sína og þekkingu, samfélaginu til góða.
Rauði krossinn á Íslandi er hluti af alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans þar sem starfa yfir 14 milljónir sjálfboðaliða.
Verkefnin eru mörg og brýn og fjárframlag þessara aðila frá Háskólanum á Akureyri ætti því að koma að góðum notum.