Gæsir lentu í hreyfli þotu yfir Eyjafirði
Gæsir lentu í hreyfli þotu tékkneska flugfélagsins Smartwings yfir Eyjafirði á sunnudagskvöldið, nokkru fyrir lendingu á Akureyrarflugvelli. Til stóð að þotan héldi á brott á ný skömmu eftir miðnætti en hún fór ekki frá Akureyri fyrr en um miðja síðustu nótt – rúmum sólarhring á eftir áætlun.
Tvær þotur Smartwings fluttu farþega til Akureyrar frá Prag á sunnudagskvöldið. Önnur hélt til baka á áætluðum tíma en flugvirki var fenginn frá Keflavík daginn eftir til þess að skoða hreyfil hinnar, sem gæsirnar lentu í. Skemmdir munu ekki hafa orðið miklar, þotan lenti eins og ekkert hefði í skorist þrátt fyrir óhappið, engum um borð í vélinni varð meint af og enginn farþeganna mun raunar hafa orðið var við neitt óeðlilegt.
Fuglafælur eru við Akureyrarflugvöll og mjög óvanalegt að fuglar trufli flugvélar við völlinn. Atvikið á sunnudagskvöldið átti sér stað nokkru utar í firðinum.