Fara í efni
Fréttir

GA Smíðajárn og Ísrör saman á Lónsbakka

Frá vinstri: Gunnlaugur Sverrisson, Sigvaldi Björgvinsson, Anna Jóhanna Guðmundsdóttir og Eiður Arnar Pálmason frá GA, Guðmundur Jónasson og Ölver Hjaltalín Arnarsson frá Ísrör, Ólafur Sverrisson, Ólafur Stefánsson og Bjarki Hrafn Ólafsson frá Vélaleigu HB. Myndir: Þorgeir Baldursson

Tvö hafnfirsk fyrirtæki, GA Smíðajárn og Ísrör ehf.,  opnuðu nýlega sameiginlega verslunar- og lageraðstöðu á Lónsbakka við Akureyri, þar sem verslun Húsasmiðjunnar var um langt árabil. Þess má geta að Vélaleiga HB er til húsa á sama stað og sér um bæði lagerafgreiðslu og útkeyrslu fyrir fyrirtækin.

GA Smíðajárn (Guðmundur Arason ehf.) á sér langa sögu. Guðmundur Arason járnsmiður stofnaði fyrirtækið árið 1970 eftir að hafa rekið Borgarsmiðjuna í áratug. Félagið, sem enn í dag er fjölskyldufyrirtæki, sérhæfir sig í innflutning og sölu á stáli. Síðustu ár hefur GA Smíðajárn rekið söluskrifstofu á Akureyri en býður nú einnig upp á stállager við Lónsbakka.

Ísrör er sömuleiðis rótgróið fyrirtæki. Það var stofnað 1992 og hefur sérhæft sig í þjónustu við orkuveitur og verktaka. Á lager fyrirtækisins á Lónsbakka er að sögn mikið úrval efnis og verkfæra fyrir lagnakerfi.

Eiður Arnar Pálmason deildarstjóri hjá GA til vinstri og Ölver Hjaltalín Arnarsson sölumaður hjá Ísrör.