GA Smíðajárn og Ísrör saman á Lónsbakka
Tvö hafnfirsk fyrirtæki, GA Smíðajárn og Ísrör ehf., opnuðu nýlega sameiginlega verslunar- og lageraðstöðu á Lónsbakka við Akureyri, þar sem verslun Húsasmiðjunnar var um langt árabil. Þess má geta að Vélaleiga HB er til húsa á sama stað og sér um bæði lagerafgreiðslu og útkeyrslu fyrir fyrirtækin.
GA Smíðajárn (Guðmundur Arason ehf.) á sér langa sögu. Guðmundur Arason járnsmiður stofnaði fyrirtækið árið 1970 eftir að hafa rekið Borgarsmiðjuna í áratug. Félagið, sem enn í dag er fjölskyldufyrirtæki, sérhæfir sig í innflutning og sölu á stáli. Síðustu ár hefur GA Smíðajárn rekið söluskrifstofu á Akureyri en býður nú einnig upp á stállager við Lónsbakka.
Ísrör er sömuleiðis rótgróið fyrirtæki. Það var stofnað 1992 og hefur sérhæft sig í þjónustu við orkuveitur og verktaka. Á lager fyrirtækisins á Lónsbakka er að sögn mikið úrval efnis og verkfæra fyrir lagnakerfi.
Eiður Arnar Pálmason deildarstjóri hjá GA til vinstri og Ölver Hjaltalín Arnarsson sölumaður hjá Ísrör.