Fara í efni
Fréttir

Fyrsti aðgengisdagur Sjálfsbjargar

Kjartan Hauksson, eigandi Skóhússins, Sigrún María Óskarsdóttir og Elmar Logi Heiðarsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kjartan Hauksson eigandi Skóhússins við Ráðhústorg hyggst bæta aðgengi fyrir fatlaða að versluninni með því að koma upp rampi, skálaga braut, við innganginn. Hann ákvað að drífa í þessu eftir að fulltrúar Sjálfsbjargar, félags hreyfihamlaðra á Akureyri og nágrenni, gengu á milli fyrirtækja í miðbænum í því skyni að hvetja til þess arna.

Sigrún María Óskarsdóttir og Elmar Logi Heiðarsson, sem bæði eru í hjólastól, skoðuðu aðstæður og mögulegt aðgengi fatlaðra í miðbænum í sumar og ræddu við eigendur fyrirtækja. „Við hvöttum fólk til að laga aðgengi hjá sér og allir tóku okkur þokkalega,“ segir Sigrún við Akureyri.net. „Það var reyndar gegnumgangandi að erlendir aðilar tóku okkur betur en íslenskir,“ segir hún.

Í dag er fyrsti aðgengisdagur Sjálfsbjargar, landsambands hreyfihamlaðra, og verður athygli vakin á málefninu um allt land. Verkefnið Römpum upp Ísland, sem Haraldur Þorleifsson var hvatamaður að, hefur vakið mikli athygli enda til mikillar fyrirmyndar; stofnaður var sjóður og hægt að sækja um styrki, en Kjartan í Skóhúsinu ákvað að fara styttri leiðina og gera rampinn við verslun sína á eigin kostnað. Með því móti getur hann bætt aðgengi strax í haust og segir það ekki bara komi fólki í hjólastólum til góða, einnig þeim sem notast við göngugrind eða eiga af einhverjum ástæðum erfitt með gang.

„Við viljum vera með á Akureyrarvöku og ætlum að vekja athygli á þeim verkefnum sem eru í gangi,“ segir Rúnar Þór Björnsson, sem sæti á í stjórn Sjálfsbjargar á Akureyri og nágrenni. Rúnar lýsir yfir mikilli ánægju með ákvörðun Kjartans. „Hann sagði strax að þetta væri ekkert mál; hann myndi bara drífa í þessu.“

Fulltrúar Sjálfsbjargar verða við Skóhúsið á Ráðhústorgi í dag þar sem þeir kynna starfsemina og börn og fullorðnir geta fengið að prófa hjólastóla, m.a. að aka yfir hindranir.

Rúnar Þór, Sigrún María og Elmar Logi segja aðstæður mjög misjafnar í miðbæ Akureyrar, sums staðar séu þær ómögulegar en annars staðar til fyrirmyndar; gott dæmi um það sé til dæmis verslun Icewear, steinsnar frá Ráðhústorgi.