Fyrirlestur í HA um frelsun samfélagsins
Rithöfundurinn og sjónvarpsmaðurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson heldur fyrirlestur í Háskólanum á Akureyri á morgun, föstudag, um efni nýjustu bókar sinnar, Í stríði og friði fréttamennskunnar. Erindið hefst klukkan 09:45 og stendur til 10:30 og fer fram í Borgum.
„Umrædd bók Sigmundar Ernis hefur vakið mikla athygli og umtal frá því hún kom út snemma í síðasta mánuði, enda gerir hann þar upp langa og viðburðaríka fjölmiðlatíð sína – og sýnir hvernig frjálsri fjölmiðlun tókst að opna og breikka samfélagið á árunum eftir 1975, og í rauninni að frelsa það undan ofríki flokksræðisins sem taldi sig eiga það með húð og hári,“ segir í tilkynningu.
Bók Sigmundar Ernis hefur einnig verið lýst sem sagnaveislu, enda hefur hann verið með andlitið ofan í Íslandssögunni frá því hann byrjaði í blaðamennsku 1981 og kynnst þar öllum reykfylltu bakherbergjunum sem þóttu eftirsótt af valdhöfunum um langa hríð, eins og það er orðað.
Fyrir þá sem ekki komast á erindi Sigmundar Ernis í HA á föstudagsmorgni má geta þess að hann verður með upplestur úr bók sinni í Amtsbókasafninu klukkan 12:30 sama dag.