Fara í efni
Fréttir

Fyrir Guði er ekkert ómögulegt

Aftansöngur var í Glerárkirkju klukkan 17.00 á aðfangadag. Þar flutti séra Magnús Gamalíel Gunnarsson héraðsprestur eftirfarandi ræðu. Kór Glerárkirkju söng undir stjórn Valmars Väljaots organista.
_ _ _

Við skulum biðja. Við þökkum þér Drottinn fyrir jólatíðina, við þökkum þér fyrir kraftaverk hinna fyrstu jóla er þú snertir líf okkar á þann hátt að það verður aldrei samt og jafnt eftir. Gefðu að orð jólaguðspjallsins um dýrð í upphæðum og frið á jörðu megi verða að veruleika í lífi okkar héðan í frá og að eilífu. Í Jesú nafni. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Kæru vinir.

Síðastliðin þrenn jól hafa verið mjög skrítin, svo vægt sé tekið til orða. Covid veiran hefur haft gríðarleg áhrif með allskonar hömlum á mörgum sviðum.

En loksins virðist veiran vera á undanhaldi og engar samkomutakmarkanir verið lengi við líði, þó vissulega skjóti veiran upp kollinum af og til.

Kannski höfum við lært eitthvað af þessu ástandi. Allt sem við höfum talið sjálfgefið hingað til hefur breyst í vitund okkar. En er þá eitthvað sem við getum verið þakklát fyrir á þessum tíma? Enn mega börn fara í skóla og ennþá megum við og getum heimsótt okkar nánustu og enn getum við fengið okkur göngutúra í Kjarnaskógi.

Kórónuveiran hefur minnt okkur á að okkur eru sett takmörk í lífinu og kannski einmitt þessvegna er yndislegt að heyra söguna í jólaguðspjallinu um fæðingu frelsarans, en ekki endalok lífsins. Jólaguðspjallið fjallar um byrjun, en ekki endi og hefur gert það hver einustu jól í meira en 2000 ár. Það skiptir meira máli að við fæðumst, heldur en að við deyjum. Því við fæðingu hefst alltaf eitthvað nýtt. Á hverju augnabliki fæðast börn í heiminn. Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn, er tónað í hverri messu á jóladag.

Og boðskapur englanna í jólaguðspjallinu ómar. Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinnn í borg Davíðs. Og þér munuð finna barn, reifað og lagt í jötu.

Þegar ég var barn var kannski ekki hugsað mest um þennan boðskap, heldur áttu sjálfar jólagjafirnar stóran sess í huga mínum, eins og venja er hjá börnum.

Hver verður stærsta jólaóskin í ár?

Nýr farsími, eða ársaðgangur að streymisveitu? Kannski verða það þannig jólagjafir sem verða undir jólatrénu í ár, hver veit. Reyndar heyrði ég í útvarpinu um daginn að bækur væru aftur orðnar vinsælar til jólagjafa, og er það vel.

Eitt barn sagði núna fyrir stuttu að það vildi fá í jólagjöf að öll fjölskyldan mætti vera saman. Vonandi rætist sú ósk barnsins. En hvers vegna að óska sér einhvers ef maður fær það hvort eð er ekki. Til hvers að biðja til Guðs ef hann bænheyrir mann ekki? Þannig spurninga hefur mannkynið ávallt spurt í gegnum tíðina. Og við höldum áfram að óska okkur að guð gefi okkur trú, von og kærleika og að framtíðin verði björt. Og hvers vegna gerum við það? Það gerum við vegna jólaboðskaparins. Mönnunum er ýmislegt um megn, en fyrir Guði er ekkert ómögulegt.

Það sýndi sig hina fyrstu jólanótt þegar Kristur fæddist og var lagður í jötu í Betlehem. Von fæddist á fátæklegum stað og í myrkrinu fæddist ljós heimsins. Kraftaverk, ævintýri? En þetta gerðist nú samt.

Jólaguðspjallið er sá texti í biblíunni sem minnir mest á ævintýr.

H.C. Andersen skrifaði eitt sinn jólaævintýri um síðasta draum eikartrésins, þar sem eikina dreymdi að hún lyftist frá jörðinni til himins í dásamlegu augnabliki. En þegar jóladagur hófst hafði stormur rifið eikina upp með rótum þar sem hún hafði staðið rótföst í 365 ár. Tréð liggur á jörðinni í snjónum og kirkjuklukkurnar hringja og fallegir jólasálmar eru sungnir, hljóma eins og bænir sem bornar eru upp til himins á englavængjum, eins og eikina dreymdi á jólanótt. Og einnig þannig lyfta jólin okkur nær himninum við söngva og bænir jólanna. Jólin eru margan hátt ævintýri, en ævintýri sem er raunverulegt sem verður til þess að við höldum fast í hátíðina á hverju ári, hvort sem við erum ein eða með öðrum.

Aftur er komið aðfangadagskvöld með jólaguðspjallið um fæðinguna í gripahúsinu og sálminn um barnið í jötunni. Eitt augnablik ljómar hið skæra ljós í myrkrunum, fögnuður fer um örvilnaðan heim: Yður er í dag frelsari fæddur. Við fögnum þessu augnabliki sem kemur aftur ár eftir ár. Jólahátíðin gefur okkur tilefni til að draga að okkur allt það sem getur aukið gleði okkar og gert hana innilegri.

Enga frásögn heyrum við jafn oft og þessa sögu, sem jólaguðspjallið flytur: um barnið sem nýfætt er lagt í jötu og englasönginn:

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður með þeim mönnum.sem hann hefur velþóknun á. Engin orð Biblíunnar hefi ég lesið jafn oft eða lagt jafn oft út af.

Það er annars undarlegt, hve ein lítil saga getur gefið tilefni til margvíslegra umræðna. Og þessi saga er alveg einstæð að því leyti að umræðuefnin um hana eru næstum óendanlega mörg. Og þegar ég hugsa um jólaræðurnar mínar, sem eru margar eftir rúmlega 30 ára prestskap, þá ber fyrir augun setningar eins og þessi: Dýrð Guðs, Friður á jörðu, Barnið í jötunni, Ekki rúm, Ljós í myrkri, Verið óhræddir og þannig mætti áfram telja.

Í þessari litlu sögu er alltaf hægt að finna eitthvað nýtt, einhvern nýjan streng, sem hún slær í hjarta manns ef hún er lesin með kostgæfni eða hlustað á hana í bænarhug. Og þetta er ekkert undarlegt því að þarna er sjálfur Guð að tala. Biblían er orð hans og hann talar við okkur í orði sínu, hann talar þar til þín og mín.

Jólin færa okkur boðskap Guðs. Allt megnar Guð. Verið óhrædd. Ljósið skín í myrkrinu. Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól og farsæld á komandi ári.