Fara í efni
Fréttir

Fylgið meira í NA en flokksins á landsvísu

Njáll Trausti Friðbertsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, til vinstri, og Jens Garðar Helgason, sem bítast um efsta sæti listans. Kosið verður á milli þeirra á kjördæmisþinginu á morgun.

Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi nýtur meira fylgis en flokkurinn á landsvísu skv. könnun Maskínu á fylgi stjórnmálaflokkanna sem kynnt var fyrir helgi. Það vekur athygli, svo og það að hvergi nema í Suðurkjördæmi nýtur flokkurinn meira fylgis; þar er fylgið langmest (17,5%) en  næst koma Norðvestur- og Norðausturkjördæmi, þar sem fylgið er nánast það sama – 14,8 og 14,7%.

Bent var á það í Morgunblaðinu í dag að í liðnum mánuði hefði Sjálfstæðisflokkurinn fengið innan við 10% í Norðausturkjördæmi í könnun Maskínu og það hafi verið áberandi versta frammistaða flokksins eftir kjördæmum. Nú er útkoman sem sagt allt önnur.

Sjálfstæðismenn raða niður á lista flokksins í Norðausturkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar 30. nóvember á tvöföldu kjördæmisþingi sem fram fer í Mývatnssveit á morgun, sunnudag. Kosið verður í hvert og eitt efstu sætanna fimm en síðan kosið um tillögu kjörnefndar um 6. - 20. sæti.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins er þetta skv. nýjustu könnun Maskínu:

  • Sjálfstæðisflokkurinn á landsvísu 14,1%
  • Reykjavík - Norður 11,0%
  • Reykjavík - Suður 12,8%
  • Suðvestur 13,8%
  • Norðvestur 14,8%
  • Norðaustur 14,7%
  • Suður 17,5%

Í dag höfðu 11 tilkynnt um framboð í efstu sæti listans. Smellið hér til að sjá frétt Akureyri.net frá því í morgun.