Fréttir
Fundur Landverndar og SUNN í Leifshúsum
02.04.2025 kl. 09:09

Herðubreið, séð frá fjöllunum í kring um Öskju. Mynd: RH
Áhugasömum um náttúruvernd á Norðurlandi og á landsvísu er boðið til félagsfundar um stefnumótun í náttúruvernd í Leifshúsum á Svalbarðsströnd í kvöld. Þorgerður María Þorbjarnardóttir, formaður Landverndar og Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar eru á ferð um landið til þess að funda með náttúruverndarsamtökum og stilla saman strengi. Fundurinn fer fram í salnum í Leifshúsum og hefst kl. 18.00 og stendur til kl 19.30.
„Það skiptir svo miklu máli að hitta fólk sem er í náttúruvernd um allt land,“ segir Þorgerður María. „Fólk upplifir sig oft eitt og einmana í baráttunni en við viljum minna á að við erum til taks og viljum hlusta á það hvað fólkið sem þekkir svæðin sín best hefur frá að segja. Svo er mikilvægt að félagar í Landvernd um allt land komi að stefnumótuninni sem gildir fyrir samtökin til 2028.“
Landvernd heldur fundinn í samstarfi við náttúruverndarsamtök landshlutans, SUNN. Rakel Hinriksdóttir, formaður SUNN, mun halda stutta kynningu á samtökunum og starfsemi þeirra, síðan mun Þorgerður María kynna Landvernd og þeirra starf. Svo er á dagskrá stefnumótun og samstilling strengja um umhverfis, loftslags og náttúruvernd, þar sem gestir fundarins fá tækifæri til þess að koma sínum hugðarefnum og spurningum á framfæri.