Fréttir
Fullveldinu fagnað í Háskólanum
01.12.2022 kl. 19:30
Hulda Dröfn Sveinbjörnsdóttir, fulltrúi stúdentaráðs, hringir Íslandsklukkunni í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Fullveldisdeginum 1. desember var fagnað í Háskólanum á Akureyri venju samkvæmt. Hátíðahöldin hófust eins og áður við Íslandsklukkuna, hið fallega listaverk Kristins Hrafnssonar á lóð skólans, þar sem Hulda Dröfn Sveinbjörnsdóttir, fulltrúi stúdentaráðs, hringdi klukkunni 22 sinnum, einu sinni fyrir hvert ár frá aldamótum. Að því loknu var boðið upp á heitt kakó og smákökur í matsal skólans, Kaffi Borg, Eyjólfur Guðmundsson rektor ávarpaði gesti, svo og Lilja Margrét Óskarsdóttir, fulltrúi stúdenta, og barnakórar Akureyrarkirkju sungu nokkur lög undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur.