Fréttir
Fuglaskoðun fyrir fjölskylduna hjá Ferðafélaginu
21.05.2024 kl. 10:12
Mynd: Heimasíða Ferðafélags Akureyrar
Nú er mikið að gera hjá fiðruðu vinum okkar, fuglunum. Allflestir eru farfuglarnir komnir heim til Íslands og komnir á fullt í vorverkin. Ferðafélag Akureyrar hefur boðið upp á fuglaskoðunarferð fyrir fjölskyldur á þessum tíma undanfarin ár, og næstkomandi miðvikudag, þann 22. maí, verður farið saman út í náttúruna með sjónauka og forvitnina að vopni.
Það eru þeir Jón Magnússon og Sverrir Thorstensen, fuglaáhugamenn með meiru, sem sjá um fararstjórn í ferðinni, en lagt verður af stað frá FFA, Strandgötu 23 á einkabílum kl 17.00. Ferðafélagið óskar eftir því að fólk skrái sig í ferðina á heimasíðu félagsins. HÉR er skráning.
Áfangastaður er Kristnestjörn í Eyjafirði og þáttaka í ferðinni er ókeypis.