Fara í efni
Fréttir

Frost hannar og smíðar kælikerfi fyrir Arctic Fish

Guðmundur Hannesson, framkvæmdastjóri Kælismiðjunnar Frosts, til hægri, og Stein Ove Tveiten, forstjóri Arctic Fish, undirrituðu samninginn á Íslensku sjávarútvegssýningunni fyrr í þessum mánuði.

Kælismiðjan Frost og fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish hafa undirritað samning um að Frost hanni og afhendi fullbúið kælikerfi til ís- og krapaframleiðslu og sjókælingar auk hráefniskælingar fyrir nýja laxavinnslu Arctic Fish í Bolungarvík.

Guðmundur Hannesson, framkvæmdastjóri Kælismiðjunnar Frosts, segir að um sé að ræða heildarlausn sem að fullu sé hönnuð hjá Frosti. Gert sé ráð fyrir afhendingu á öllum búnaði í laxavinnsluna á síðari hluta þessa árs og uppsetning og gangsetning á búnaðinum verði á fyrsta ársfjórðungi 2023.

Hin nýja laxavinnsla Arctic Fish á hafnarsvæðinu í Bolungarvík verður tekin í notkun á næsta ári. Þegar fram í sækir er gert ráð fyrir að árlega fari um 50 þúsund tonn í gegnum vinnsluna.

„Við hjá Frosti erum afar ánægð með það traust sem okkur er sýnt með þessum samningi. Áralöng reynsla og þekking fyrirtækisins í framleiðslu á ís, krapa og sjókælingu með hámarksnýtni og gæði að leiðarljósi skiptir viðskiptavini okkar miklu máli. Hönnunin er þegar hafin og verður hún í starfsstöðvum okkar á Akureyri og í Garðabæ. Smíði búnaðarins verður síðan á haustdögum og við gerum ráð fyrir að uppsetning hans í Bolungarvík taki tvo til þrjá mánuði,“ segir Guðmundur í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Það er lykilatriði að tryggja ferskleika og gæði afurða í slátrun og öllu vinnsluferlinu. Því þurfti að vanda valið vel og tryggja að öll hönnun og búnaður væri í samræmi við kröfur og væntingar Arctic Fish. Við erum afar ánægð með að hafa valið Frost sem samstarfsaðila í þetta stóra uppbyggingarverkefni hjá okkur í Bolungarvík,“ segir Stein Ove Tveiten, forstjóri Arctic Fish.

Fulltrúar fyrirtækjanna við undirritun samningsins á Íslensku sjávarútvegssýningunni. Frá vinstri: Daníel Jakobsson framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Arctic Fish, Ragna Helgadóttir verkefnastjóri byggingarframkvæmda hjá Arctic Fish, Stein Ove Tveiten forstjóri Arctic Fish, Guðmundur Hannesson framkvæmdastjóri Frosts og Hákon Hallgrímson sölustjóri Frosts.