Fara í efni
Fréttir

Frítt húsnæði er í boði í Fljótunum

Viltu búa frítt í norðlenskri sveit? Bjarnargil í Fljótum er bújörð með stóru íbúðarhúsi auk útihúsa. Mynd: Fasteignamiðstöðin

Það er ekki oft sem húsnæði er auglýst ókeypis til búsetu. Slíkt tækifæri býðst þó um þessar mundir á Norðurlandi vestra, nánar tiltekið í Fljótunum, í Skagafirði austanverðum. Þangað er um tveggja klukkstunda akstur frá Akureyri, hvort sem farið er um Siglufjörð eða yfir Öxnadalsheiði og þaðan út Skagafjörð.

Akureyri. net fjallaði nýlega um leigumarkaðinn á Akureyri en mikill skortur er á leiguhúsnæði í bænum auk þess sem leiguverð hefur hækkað mikið. Tækifærið sem býðst til frírrar búsetu í Fljótunum gæti því höfðað til einhverra sem eru í húsnæðisleit.

Náttúra og skjálaus afþreying

Eins og lesa má um á heimasíðunni Bjarnargil.is þá auglýsir eigandi jarðarinnar eftir ábúanda, pari, einstaklingum eða vinahópi, sem er til í að taka þátt í uppbyggingu á svæðinu, en íbúðarhúsið stendur réttum aðila frítt til boða. Eigandi jarðarinnar stendur á bak við kúluhótelið sem er staðsett er bæði í Bláskógabyggð og Flóahreppi.

„Hugmyndin sem við erum að móta í Fljótunum snýr að því að hanna náttúrutengda gistieiningu sem og skjálausa afþreyingu," segir á heimasíðunni. Þar segir jafnframt:  „Við elskum sjálfsprottin verkefni og teljum það oft bestu leiðina til að koma hlutum af stað. Við erum með verkefnið hálf mótað og viljum skref fyrir skref fullmóta það með staðarhaldara sem á heima á staðnum. Við leitum því að pari (eða einstaklingum) til að vera staðarhaldari sem fær húsnæðið til afnota að hluta eða öllu leyti gegn því að hjálpa til við að koma hlutunum af stað. Mögulega geta þetta verið tvö pör eða lítill vinahópur. Þegar sala hefst fer verkefnið að skapa tekjur fyrir staðarhaldara.“

Óskað eftir handlögnum fagurkerum

Þá er á heimasíðunni lýsing á því hvers konar ábúendur eigendur vilja helst fá á staðinn en til að mynda er talað um handlagni, gott auga og áhuga á skjálausri afþreyingu. „Sem dæmi þá gæti þetta hentað vel fyrir par sem langar að prófa sveitalífið í 2-3 ár og mögulega leigja út íbúðina sína í þéttbýli á meðan. Losna þannig undan lánum og alltof háum vöxtum,“ segir líka á áðurnefndi heimasíðu. Þess má líka geta að áðurnefnd eign er reyndar líka á söluskrá hjá Fasteignamiðstöðinni.