Fara í efni
Fréttir

Fríar skólamáltíðir – hádegisverður eða allt?

Mynd: Obi - unsplash.com.

Túlkun á hugtakinu „gjaldfrjálsar skólamáltíðir“ gæti sett strik í reikninginn varðandi framkvæmd kjarasamninganna sem undirritaðir voru fyrr á árinu. Svo virðist sem ekki sé á hreinu að allir aðilar samninganna líti með sama skilningi á það við hvað er átt, hvort þarna sé aðeins um að ræða hádegisverð eða alla næringu, allar máltíðir, sem grunnskólabörnum bjóðast, svo sem morgunhressingu og ávaxta- eða mjólkuráskrift. 

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, segir skýrt að samkomulagið eigi við um allar skólamáltíðir í grunnskólum og minnir á sparnað sveitarfélaganna vegna hófstilltra launahækkana. Anna Júlíusdóttir, formaður Einingar-Iðju, segir það alveg skýrt af hálfu verkalýðshreyfingarinnar að allar máltíðir verði gjaldfrjálsar. „Það verður að koma í ljós hvort það gangi eftir og ekki er hægt að segja til um hver viðbrögðin verða ef það verða einhver svik af hálfu sveitarfélaganna,“ segir Anna í svari við fyrirspurn frá Akureyri.net.

Óhepplegt að þetta sé ekki á hreinu

Við afgreiðslu bæjarráðs Akureyrarbæjar á gjaldskrám fræðslu- og lýðheilsuráðs í morgun bókuðu Hilda Jana Gísladóttir, S-lista, og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, V-lista, að það væri vægast sagt óheppilegt að enn sé ekki á hreinu hvort samkomulag hins opinbera og vinnumarkaðarins feli í sér að til standi að allt fæði og drykkur, s.s. morgunverður, ávaxtaáskrift, mjólkuráskrift og síðdegishressing, verði gjaldfrjáls á þeim skólavetri sem senn hefst – eða aðeins hádegisverður.


Hilda Jana Gísladóttir, S-lista, og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, V-lista, segja vægast sagt óheppilegt að enn sé ekki á hreinu hvað felist í hugtakinu „fríar skólamáltíðir“.

Hér er á ferðinni risastórt hagsmunamál, annars vegar fyrir foreldra gunnskólabarna og hins vegar sveitarfélögin, hvoru megin túlkunin og framkvæmdin lendir. 

Skólamáltíðir í fleirtölu

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, segir í svari við fyrirspurn frá Akureyri.net að hans mat sé að skólamáltíðir í grunnskólum verði með öllu gjaldfrjálsar.

Spurður um það hvort það hafi verið á hreinu milli viðkomandi ráðuneyta, Sambands íslenskra sveitarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar hver túlkunin væri á því hvað fælist í „fríum skólamáltíðum“, segir Vilhjálmur það hafi ekki verið rætt sérstaklega og mismunandi útfærslur milli grunnskóla hvernig skólamáltíðum er fyrir komið hafi ekki komið til tals, en hann ítrekar að verið sé að tala um gjaldfrjálsar skólamáltíðir í fleirtölu.


Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, og Anna Júlíusdóttir, formaður Einingar-Iðju, segja það á hreinu að samkomulagið eigi við um allar skólamáltíðir.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands.

Spurður um næstu skref, út frá því að mögulega sé það ekki á hreinu og ekki sams konar túlkun allra aðila á því hvað nákvæmlega sé vísað til með „fríum skólamáltíðum“ segir Viljhjálmur að hann sem formaður Starfsgreinasambandsins hafi brýnt fyrir aðildarfélögum SGS að fylgjast vel með því að sveitarfélögin uppfylli loforð sem gefið var út til stuðnings við kjarasamninga af hálfu ríkis og sveitarfélaga.

Hóflegir samningar sparnaður fyrir sveitarfélögin

„Ég vil minna á kjarasamningurinn sem samið var um markaði tímamót en hann gengur út á að skapa skilyrði til að verðbólga lækki og vextir,“ segir Vilhjálmur og bendir á að samningurinn sé til fjögurra ára og sé hófstilltur þar sem meðaltalshækkun á ári sé um 4,2%. „Í þessu samhengi er rétt að geta þess að í flestum fjárhagsáætlunum sveitarfélaganna var gert ráð fyrir yfir 8% launahækkun fyrir árið 2024. Þetta þýðir umtalsverðan sparnað á launagreiðslum ef 8% launahækkun var einnig inni hjá Akureyrakaupstað fyrir árið 2024 en samið um 4,2%. Í fjárhagsáætlun Akureyrarkaupstaðar var gert ráð fyrir að laun og launatengd gjöld væru 16,5 milljarðar sem þýðir sparnað á launahækkunum sem nemur 660 milljónum miðað við 4,2% launahækkun. Ef öll sveitarfélög eru skoðuð þá er launakostnaður þeirra fyrir A hluta 295 milljarðar sem þýðir að hófstilltur samningur lækkar launakostnað miðað við fjárhagsáætlanir um tæpa 12 milljarða,“ segir Vilhjálmur ennfremur í svari sínu.

„Ástæðan fyrir því að við sömdum með hófstilltum hætti var vegna þess að við viljum skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta og verðbólgu og auka ráðstöfunartekjur með fríum skólamáltíðum og lækkun á gjaldskrám niður í 3,5% sérstaklega sem lýtur að barnafólki,“ segir Vilhjálmur og bendir á að sveitarfélögin fái miklu meira til sín í formi hófstilltra launahækkana en það sem þau lýsa yfir til að styðja við kjarasamninga. Þau eigi að leggja til fríar skólamáltíðir og lækka gjaldskrár.