Fara í efni
Fréttir

Einum fréttamanni RÚV sagt upp - tveir eftir

Einum þriggja fréttamanna Ríkisútvarpsins á Akureyri, Úllu Árdal, var sagt upp störfum í gær vegna niðurskurðar.

Tveir fréttamenn starfa áfram hjá RÚV á Akureyri, Ágúst Ólafsson og Óðinn Svan Óðinsson. Haft var eftir Rakel Þorbergsdóttur, fréttastjóra RÚV, á Vísi að grípa hefði þurft til hagræðingaraðgerða vegna niðurskurðar - þess mesta sem fréttastofan hafi staðið frammi fyrir síðan árið 2013. Með uppsögnum og skertu starfshlutfalli starfsmanna sparist hátt í 100 milljónir króna.

Þremur fastráðnum fréttamönnum Ríkisútvarpsins var sagt upp í gær en Rakel sagði fréttastofuna í raun vera að missa sex stöðugildi. „Hin þrjú stöðugildin eru m.a. vegna fækkunar umsjónarmanna í fréttaþáttum auk þess sem nokkrir af reynslumestu fréttamönnunum okkar fara í skert starfshlutfall eða láta af störfum þegar þeir ná lífeyrisaldri.“