Fara í efni
Fréttir

Framkvæmdir hafnar við innilaugina

Búið er að tæma innilaugina í síðasta sinn. Margir Akureyringar eiga góðar minningar úr lauginni sem hefur þjónað vel í gegnum árin en er orðin barns síns tíma.

Framkvæmdir hófust við innilaug Sundlaugar Akureyrar á mánudag. Til stendur að endurnýja sundlaugina algjörlega og er reiknað með því að framkvæmdir standi fram á vor.

Eins og Akureyri.net hefur áður sagt frá eru um stórar breytingar að ræða, en meðal þess sem til stendur til að gera er að taka hina háu bakka laugarinnar í burtu og setja í staðinn yfirfljótanlega bakka. Þá verður rýmið allt mun bjartara með stærri gluggum og betra aðgengi að lauginni á alla kanta.

Verið er að búa til slóða á lóð andapollsins svo vinnutæki komist að sundlaugarhúsinu en farga þarf miklu múrbroti þegar gamla laugin verður rifin. 

Vinnuslóði yfir andapollinn

Tæming sundlaugarinnar í síðasta sinn á mánudag markaði upphaf verksins og nú tekur við niðurbrot á lauginni. Þá er búið að tæma efri hluta andapollsins og girða hann af þar sem hluti framkvædanna felst í því að færa útvegg innilaugarinnar lengra út á lóðina og þurfa tæki að hafa aðgengi að svæðinu.

Vegna framkvæmdanna mun skólasund yngstu nemendanna færast í lendingarlaug rennibrautanna. Þetta þýðir að í vetur verða rennibrautarnar ekki opnar á virkum dögum fyrr en eftir kl. 14.

Aðgengið að innilauginni verður allt annað eftir breytingarnar. Mynd: Teikning frá Form

Þessi veggur sem snýr í austur verður færður lengra út og gluggarnir stækka.