Fara í efni
Fréttir

„Framkvæmd sem mun breyta miklu fyrir Þór“

Nói Björnsson formaður Þórs og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri takast í hendur eftir að samningurinn var undirritaður í morgun. Knattspyrnufólkið unga heitir, frá vinstri: Bjarki Fannar Arnarson, Gunnar Karl Valtýsson, Jóhann Pálsson og Sonja Sigurðardóttir. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Í dag var skrifað undir samning Akureyrarbæjar og Íþróttafélagsins Þórs um uppbyggingu gervigrassvæðis á félagssvæðinu í Glerárhverfi. Nói Björnsson formaður Þórs og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri undirrituðu samninginn á pallinum við Hamar, félagsheimili Þórs, að viðstöddum hópi fólks, Þórsara og fulltrúa bæjarins.

Um er að ræða svæðið Ásinn austan við keppnisvöll félagsins. Þar verður knattspyrnuvöllur í fullri stærð, 105 x 68 m, flóðlýsing og 35 x 80 metra æfingasvæði. Gerivgrasið verður tilbúið næsta vor. Gert er ráð fyrir þeim möguleika að 500 manna áhorfendastúka verði reist austan við völlinn en hún er ekki hluti af samningnum.

Næsta verkefni enn stærra

Nói Björnsson sagði þetta stóran dag, enda fór hann í sitt fínasta púss. „Þetta er seinni dagurinn á árinu sem ég fer í þessi jakkaföt! Hinn var fermingardagur barnabarns míns,“ sagði formaðurinn í léttum dúr.

„Þessi framkvæmd mun breyta miklu fyrir okkur Þórsara. Aðstaðan hefur staðið okkur fyrir þrifum; við höfum ekki getað verið með eins mörg lið og við hefðum viljað vegna vallaraðstæðna. Ég er gríðarlega ánægður með þetta skref sem verið er að taka og ég vil nota tækifærið og þakka bæjaryfirvöldum fyrir mjög gott og ánægjulegt samstarf í þeirri vinnu sem er að baki.“

Nói sagði að vonandi yrði hafist handa innan tveggja eða þriggja mánaða „og gervigrasið verður tilbúið vordögum á næsta ári.“

Formaður Þórs sagði þá sem starfa í íþróttahreyfingunni ætíð þurfa að vera á tánum og næsta verkefni væri enn stærra og mikilvægara fyrir félagið í heild. „Við vorum auðvitað byrjuð að tala um það áður en gengið var frá þessum samningi,“ sagði Nói og átti við íþróttahús sem lengi hefur verið á óskalista Þórsara enda starfsemi félagsins dreifð um bæinn. Gríðarlegu máli skipti að öll starfsemin sé á einum stað, til þess að sameina alla félagsmenn.

Knattspyrnumenn félagsins eru í raun þeir einu sem eiga heima í Hamri. Aðrir æfa og keppa annars staðar en á félagssvæðinu. „Ég er búinn að lofa því að verða áfram formaður þar til íþrótthúsið okkar verður tilbúið – nema mér verði steypt af stóli,“ sagði Nói.

Mikill gleðidagur

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri óskaði Þórsurum innilega til hamingju með daginn.

„Ég held ég geti talað fyrir munn allrar bæjarstjórnar og sagt að þetta er mikill gleðidagur, að við getum skrifað undir þennan samning sem ég veit að hefur verið beðið eftir. Ég hef fylgst með starfinu ykkar sem er blómlegt og metnaðarfullt, þið eruð með metnaðarfulla stjórn sem stendur vaktina og ég veit að þið munuð halda úti glæsilegu starfi fyrir börn og ungmenni sem nýta þessa aðstöðu,“ sagði bæjarstjórinn. „Ég vona að framkvæmdir gangi hratt og örugglega þannig að iðkendur fái þessa góða aðstöðu, sem mun breyta umtalsvert miklu fyrir æfingar frá apríl og fram á haust, þannig að hægt sé að láta félagið vaxa enn meira. Innilega til hamingju og megið þið njóta þegar þessu líkur.“

Gervigras á svæði Þórs formlega samþykkt

Gervigras lagt á svæði Þórs næsta vor