Fara í efni
Fréttir

Frændur vorir Finnar æfa aðflug á Akureyri

Mynd af vef Stjórnarráðsins. Þar segir að F/A-18 Hornet flugvélar finnska flughersins hafi áður verið á Íslandi 2014, þegar þær tóku þátt í æfingum samhliða loftrýmisgæslu norska flughersins.
Gera má ráð fyrir að flestir bæjarbúar hafi orðið varir við miklar drunur eftir hádegi í dag þegar herþotur flugu yfir bæinn, jafnvel þeir sem heyra alla jafna ekki sérlega vel. Þarna voru á ferð F/A-18 Hornet orrustuþotur finnska flughersins en flugsveit hans sinnir loftrýmisgæslu á Íslandi þessa dagana, í fyrst sinn eftir að Finnar gengu í Atlantshafsbandalagið, að því er segir á vef Stjórnarráðsins.
 
Flugsveitin tekur þátt í verkefninu ásamt starfsmönnum stjórnstöðva Atlantshafsbandalagsins í Uedem í Þýskalandi og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Finnska sveitin samanstendur af fjórum F/A-18 Hornet þotum og allt að 50 liðsmönnum.
 
„Með fyrirvara um veður er gert ráð fyrir aðflugsæfingum á varaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum á tímabilinu 24. janúar til 7. febrúar,“ segir á Facebook síðu Akureyrarbæjar í dag. 
 
„Flugsveitin hefur aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli ásamt flugsveitum aðildarríkja Atlangshafsbandalagsins sem sinna kafbátaeftirliti úti fyrir ströndum Íslands. Varnarmálasvið Landhelgisgæslu Íslands annast framkvæmd verkefnisins, í umboði utanríkisráðuneytisins, í samstarfi við Isavia.“