Fara í efni
Fréttir

Frádráttur fyrir framlög til almannaheillafélaga

Einstaklingar og fyrirtæki geta lækkað tekjuskattstofn sinn og náð sér þannig í frádrátt aukalega frá tekjuskatti með því að styrkja félög, samtök eða stofnanir sem eru á almannaheillaskrá Ríkisskattstjóra. Eitthvað hefur borið á því þegar líður að áramótum, en þó ekki mikið, að félög veki athygli á þessari leið fólks og fyrirtækja til að styrkja starfsemi þeirra. Ferlið er í raun einfalt, en fyrir það fyrsta þarf viðkomandi lögaðili að hafa sótt um og fengið skráningu á almannaheillaskrána. Til að nýta frádrátt á næsta skattaframtali þarf gjöf eða styrkur að afgreiðast fyrir áramót.

Með beinum fjárstyrkjum til lögaðila á almannaheillaskrá geta einstaklingar fengið lækkun á tekjuskattsstofni fyrir framlög að lágmarki tíu þúsund, en að hámarki 350 þúsund krónur. Frádrátturinn er ekki millifæranlegur hjá hjónum/sambúðarfólki. Slíkur skattafrádráttur fæst eingöngu gegn gjöf eða beinu fjárframlagi í styrk til viðkomandi félags, en til dæmis skapa félagsgjöld að lögaðila eða greiðslur fyrir vörur og þjónustu frá lögaðila sem skráður er á almannaheillaskrá ekki rétt til skattafrádráttar. Upphæðirnar sem hér hafa verið nefndar eiga við um einstaklinga, en rekstraraðilar geta einnig náð sér í frádrátt með beinum framlögum sem geta numið 1,5% af rekstrartekjum á því ári sem gjöf er afhent eða framlag er veitt. Framkvæmdin á því er með öðrum hætti.

Einfalt í framkvæmd

Þegar fólk vill nýta sér þessa leið getur það einfaldlega haft samband við viðkomandi félag, styrkt viðkomandi félag með fjárframlagi að eigin vali og óskað eftir að upplýsingum um framlagið verði komið til skattsins. Lögaðilar sem skráðir eru á almannaheillaskrána þurfa að gefa út kvittun við móttöku gjafa og framlaga og sjá um að koma upplýsingum til skattstjóra fyrir 20. janúar. Frádrátturinn kemur þá áritaður fyrir fram á skattframtal viðkomandi gefanda. 

Viðkomandi félag þarf að sækja um skráningu á almannaheillaskrá að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Á vef Ríkisskattsstjóra segir meðal annars um lögaðila á almannaheillaskrá: Lögaðilar á almannaheillaskrá eru almennt óhagnaðardrifin félög (e. non-profit organization) sem í megindráttum reka ekki atvinnustarfsemi í skilningi skattalaga, heldur fyrst og fremst starfsemi sem að verulegu leyti byggir á vinnu sjálfboðaliða og með þjóðfélagslegan tilgang og samfélagsleg markmið að leiðarljósi. Þessum lögaðilum er þó heimil einhver atvinnustarfsemi til fjáröflunar innan þeirra marka sem tilgreind eru í samþykktum þeirra og leiða má beint af tilgangi lögaðilans. Þá er þessum lögaðilum heimil starfsemi sem hefur aðeins óverulega fjárhagslega þýðingu m.t.t. heildartekna lögaðilans.

Fjölgaði um tæpt hundrað milli ára

Árið 2022 voru 428 félög, samtök og stofnanir á almannaheillaskránni, en þeim fjölgaði um tæplega hundrað og eru 521 á þessu ári. Fjölmörg félög, samtök og stofnanir eru á almannaheillaskránni, til dæmis kirkjur og sóknir, íþróttafélög og stakar deildir þeirra, björgunarsveitir og margs konar góðgerðar- og heilbrigðistengd félög. Akureyri.net renndi í gegnum listann og fann þrjátíu félög, deildir og samtök á Akureyri á listanum, en auk þessara eru til dæmis landssamtök ýmiss konar sem starfa að einhverju leyti á Akureyri.

Starfsemi sem telst til almannaheilla samkvæmt skilgreiningu laganna er mannúðar- og líknarstarfsemi, æskulýðs- og menningarmálastarfsemi, björgunarsveitir og slysavarnadeildir, vísindaleg rannsóknarstarfsemi, háskólasjóðir og aðrir menntasjóðir, neytenda og forvarnastarfsemi, þjóðkirkjan og önnur trú og lífsskoðunarfélögu.

Eftirtalin félög, deildir og stofnanir á Akureyri eru á skránni:

  • Aflið, samtök fyrir þolendur ofbeldis
  • Akureyrarkirkja
  • Blakdeild K.A.
  • Fimleikafélag Akureyrar
  • Geðverndarfélag Akureyrar
  • Handknattleiksdeild KA
  • Handknattleiksdeild Þórs
  • Hnefaleikadeild Þórs
  • Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri
  • Hvítasunnukirkjan Akureyri
  • Íþróttafélagið Þór
  • Íþróttafélagið Þór - unglingaknattspyrna
  • Júdódeild K.A.
  • Knattspyrnudeild K.A.
  • Knattspyrnudeild Þórs
  • Knattspyrnufélag Akureyrar
  • Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis
  • Kvennaráð KA/Þór
  • Körfuknattleiksdeild Þórs
  • Lyftingadeild KA
  • Matargjafir Akureyri og nágrenni
  • Píludeild Þórs
  • Rafíþróttadeild Þórs
  • Skautafélag Akureyrar
  • Súlur Björgunarsveitin á Akureyri
  • Unglingaráð handknattleiksdeildar KA
  • Unglingaráð körfuknattleiksdeildar Þórs
  • Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðisins
  • Yngri flokka ráð Þórs í handbolta
  • Þór/KA kvennabolti