Fara í efni
Fréttir

Frábærir kennarar kallaðir englar frá Guði

„Veistu það að í mínu heimalandi þá eru frábærir kennarar kallaðir englar frá Guði, vegna þess að þeir halda samfélaginu saman, og þú ert svona engill.“ Svo brosti hann af hjartans einlægni. Allt í einu rann upp fyrir mér að sem kennari á Íslandi kannast ég betur við kröfur en hrós. 

Hlín Bolladóttir, grunnskólakennari til áratuga, kemst þannig að orði í athyglisverðri grein sem Akureyri.net birti í dag. Greinina kallar hún Varðandi virðingu. „Tvisvar í viku hitti ég hóp af fullorðnu fólki af erlendu bergi brotið og kenni því íslensku. Ég nýt þessarra stunda mjög vegna þess að þarna er fólk komið saman til að læra tungumál landsins sem það langar að freista gæfunnar í,“ skrifar Hlín og heldur áfram:

„Það sem hefur vakið sérstaka athygli mína er sú virðing sem fólkið sýnir mér. Ég kenni og fólkið meðtekur. Ég hvet það áfram og það sýnir mikinn metnað þótt áskorunin sé stór enda er íslenskan ekki auðveldasta tungumálið að læra og málkerfi skarast sannarlega.“
 
Hlín lýsir því þegar aðrir í hópnum tóku undir hrós unga mannsins og skrifar:
 
„Þarna stóð ég og vissi ekki í hvorn fótinn ég ætti að stíga vegna þess að í miðri kjarabaráttu íslenskra kennara eru þeir fyrst og fremst að biðja um að þeim og störfum þeirra sé sýnd virðing. Ég þurfti sem sagt að heyra það frá fólki af erlendum uppruna að annarsstaðar í heiminum er kennarastarfið virðingarstaða.
 
Þarna á þessu augnabliki óx ég sem manneskja og fylltist ríku þakklæti fyrir ævistarfið mitt.“
 
Smellið hér til að lesa grein Hlínar