Fara í efni
Fréttir

Frábær skíðadagur – „Allt með okkur“

Ljósmyndir: Þorgeir Baldursson

Langt er síðan jafn margir hafa skemmt sér á skíðum í Hlíðarfjalli og í dag. Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður skíðasvæðisins, telur að um 2.500 manns hafi lagt leið sína á svæðið og líklega fór enginn svikinn heim því aðstæður voru eins og best verður á kosið.

„Það var allt með okkur í dag,“ sagði Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður í Hlíðarfjalli, við Akureyri.net skömmu eftir að slökkt var á lyftunum um fjögurleytið. „Stemningin var mjög góð og veðrið flott, enginn vindur og dálítið frost, mjög gott færi og allar lyftur opnar.“

Vetrarfrí eru í mörgum grunnskólum landsins og ljóst að margar fjölskyldur hafa lagt leið sína til Akureyrar. Öll bílastæði voru orðin full um hádegi og um tíma var löng bílaröð á leiðinni upp í fjall. „Ég er nokkuð viss um að fleiri voru hér í dag en um páskana,“ sagði Brynjar Helgi.

Þorgeir Baldursson var á ferð með myndavélina í Hlíðarfjalli í dag.