Fara í efni
Fréttir

Frá Tene til Akureyrar – Gestakokkur á Rub23

Victor hefur áður komið og eldað fyrir Íslendinga á Food and Fun matarhátíðinni í Reykjavík. Um næstu helgi geta gestir Rub23 notið hæfileika hans en hann verður þar gestakokkur í tvo daga. Myndir: Kensai

Um næstu helgi fær veitingastaðurinn Rub23 til sín gestakokk frá Tenerife. Sá heitir Victor Planas en hann er með meira en 25 ára reynslu í japanskri matargerð og mun leika við bragðlauka gesta Rub23 þessa einu helgi. 

Þann 1. nóvember eru 20 ár síðan við hjónin komum norður og byrjuðum í veitingarekstri hér á Akureyri á Café Karólínu. Í tilefni af þessu 20 ára veitingaafmæli langaði okkur til að gera eitthvað öðruvísi og skemmtilegt,segir Einar Geirson, eigandi K6 veitinga, þegar hann er inntur eftir því hvernig það hafi komið til að kokkur frá Tenerife sé á leið til Akureyrar.

Yfirmatreiðslumaður veitingastaðarins Kensei á Tenerife er á leið á Rub23 um helgina. Kensei veitingastaðurinn er staðsettur á Hotel Bahía del Duque á Adeje og er þekktur fyrir nútímalega japanska matargerð. Mynd: Facebooksíða Kensei

Nútímaleg japönsk matargerð

Victor er yfirmatreiðslumaður og einn af eigendum Kensei veitingastaðarins á Tenerife sem sérhæfir sig í sushi og nútímalegri japanskri matargerð. Einhverjir Íslendingar hafa líklega borðað á staðnum hans en Kensei er staðsettur steinsnar frá Duque ströndinni á Adeje. Einar hefur sjálfur borðað þar og segir staðinn geggjaðan. Þannig ég vissi alveg hvað ég var að fá, segir Einar, sem hitti Victor í tengslum við heimsókn hans til Íslands á matarhátíðina Food and Fun og samdi þá við hann um að koma norður á Rub23. 

 

Árið 2004 hófu hjónin Einar og Heiðdís Fjóla sinn veitingarekstur á Akureyri á Café Karólínu. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan og reka þau nú nokkra veitingastaði í bænum undir merkjum K6 veitinga. Í tilefni af 20 ára veitingaafmælinu fá þau gestakokk til liðs við sig á Rub23 dagana 1. og 2. nóvember. 

20 ára veitingaafmæli á Akureyri

Þessi tvö kvöld sem Victor verður í eldhúsinu á Rub23 verður gestum boðið upp á sjö rétta matseðil sem samanstendur af bæði fiskmeti, kjöti og sushi, allt eftir kenjum kokksins. Einar segir að það sé alltaf gott að fá aðra sýn á hlutina og nýir menn komi með aðrar áherslur, en fyrst og fremst sé þetta skemmtileg tilbreytingin í tilefni af 20 ára veitingaafmælinu. Svo gerir maður sér vonir um að hann vilji fá einhvern kokk frá mér út, það er örugglega gaman að vera gestakokkur á Tene. Strákarnir hjá mér sögðu strax: förum við ekki til Tene líka,““ segir Einar og bætir við að stutt er í að það verði uppbókað á Rub23 þessi tvö kvöld svo best er að tryggja sér borð sem fyrst. 

Töff staður með góðan mat. Kensei veitingastaðurinn á Tenerife er í Michelin Guide. Mynd: Facebooksíða Kensei