Fóru í leynilöggugírinn og fundu týnd hjón
Skjót viðbrögð og hjálpsemi reið baggamuninn þegar tveir starfsmenn Securitas á Akureyri komu nýlega í veg fyrir að bresk hjón á níræðisaldri yrðu strandaglópar á Íslandi.
Atvikið átti sér stað í lok júlí en þá voru þær Þórdís Anna Hreiðarsdóttir og Guðrún Mist Þórðardóttir á vakt á hafnarsvæðinu. Við bryggju var skemmtiferðaskip sem var á leið úr höfn þegar í ljós kom að tvo farþega vantaði um borð, hjón á níræðisaldri. „Við Guðrún vorum að klára vaktina okkar þegar þetta kemur í ljós. Skipið hafði sent út mynd af hjónunum og í stað þess að fara heim því vaktin okkar var búin ákváðum við að prófa að leita að þeim,“ segir Þórdís og bætir við að málið hafi verið töluvert alvarlegt þar sem Akureyri var síðasta höfn skipsins á Íslandi. „Þegar farþegi skilar sér ekki um borð í skip sem er á leið frá Íslandi þá fer í gang ákveðið ferli til að skrá farþegann inn í landið. Við vissum því að við hefðum um hálftíma til að reyna að finna hjónin á meðan pappírsvinnan væri í gangi.“
Hefði aldrei gerst í Reykjavík
Guðrún og Þórdís hentust í snatri upp í bíl Guðrúnar og settu sig í leynilöggugírinn. Fyrsta stopp var Hof en þar voru hjónin ekki. Þá brunuðu þær inn í miðbæ þar sem þær fengu símtal frá samstarfsfélögum sínum á bryggjunni með þeim upplýsingum að hjónin hafi ætlað upp í Lystigarð. „Þá var spænt þangað, þar sem við skiptum liði og hlupum um allan Lystigarðinn í leit að þeim. Við fundum þau loks undir tré alveg slök. Gamli maðurinn hafði snúið sig á ökkla og var eitthvað illt, en þau grunaði ekki að þau væru að missa af skipinu því þau voru með klukkuna stillta á allt annan tíma. Við útskýrðum alvöru málsins fyrir þeim og hringdum strax niður á bryggju til að skipið myndi bíða eftir þeim,“ segir Þórdís. Hún segir að þeim hafi varla verið trúað í fyrstu og skipsverjum fannst ótrúlegt að þeim hefði tekist að finna hjónin. Hjónin voru sett inn í bíl Guðrúnar og þær stöllur reykspóluðu með þau til baka niður á höfn. „Þetta var eins og í bíómynd. Það var búið að opna hliðið fyrir okkur og skipið beið. Hjónin voru komin um borð um klukkustund eftir áætlaða brottför. “
Við skiptum liði og hlupum um allan Lystigarðinn í leit að þeim. Við fundum þau loks undir tré alveg slök. Gamli maðurinn hafði snúið sig á ökkla og var eitthvað illt, en þau grunaði ekki að þau væru að missa af skipinu því þau voru með klukkuna stillta á allt annan tíma.
Þórdís segir að gömlu hjónin hafi verið gríðarlega þakklát og það hafi verið góð tilfinning að hafa getað aðstoðað með þetta. Þessi dagur hefði verið með þeim æsilegri í vinnunni en það sem reið baggamuninn í leitinni var smæð bæjarins, fáir staðir komu til greina til að leita á og vegalengdir voru stuttar. „Þetta hefði aldrei gerst í Reykjavík,“ segir Þórdís og bætir við að þessi dagur muni líklega seint gleymast.
Guðrún hefur unnið hjá Securitas síðan 2019 en þetta er annað sumarið hjá Þórdísi.
Farþegar í röngu tímabelti
Þó leitin að gamalmennunum hafi sannarlega verið æsileg þá gerist það reglulega að farþegar missi af skipi á Akureyri. Að sögn Þórdísar er það ekki svo alvarlegt ef skipið er á leið í aðra höfn á Íslandi, þá sé hægt að ná því annaðhvort fyrir austan eða sunnan. „Sumir farþegar leigja sér bíl og ferðast um landið og fara svo bara um borð í næstu höfn. Í slíkum tilvikum er nú yfirleitt búið að tilkynna það fyrirfram svo ekki er verið að bíða eftir fólki,“ segir Þórdís. Hins vegar er mikið vesen ef Akureyri er síðasta stopp á Íslandi, bæði fyrir farþegana og ferðaskrifstofurnar.
Þó að fátt toppi leitina að gamalmennunum man Þórdís eftir öðru dramatísku atriði úr vinnunni en það gerðist í fyrrasumar. „Það var fjölskylda sem hafði leigt sér bíl til þess að skoða landið. Móðir og börn voru komin um borð en faðirinn fór að skila bílnum. Svo þegar átti að fara að hífa upp landganginn var móðirin alveg frávita og börnin farin að gráta því eiginmaðurinn hafði ekki skilað sér um borð. Sem betur fer sáum við glitta í hann á svæðinu og létum hann vita að hann yrði að hlaupa. Hann var á einhverjum allt öðrum tíma en þetta bjargaðist,“ segir Þórdís og bætir við að fólk sé oft ekki með íslenskan tíma stilltan í úrum og/eða símum og geri sér því ekki alltaf grein fyrir að komið sé að brottför.