Fara í efni
Fréttir

Fornbókasalar flytja úr Gilinu í Strandgötu

Bless,bless Gilið, halló Strandgata 11 b! Fornbókasalarnir Ren og Stu færa sig um set og opna nýja fornbókaverslun undir nafninu Svartar bækur í október.

Fornbókasalarnir, Ren og Stu Gates, sem rekið hafa fornbókaverslunina Fróða í Listagilinu á Akureyri undanfarin 5 ár, eru senn á förum úr Gilinu. Í byrjun október opna þeir nýja verslun í miðbænum undir nafninu Svartar bækur.

Gamlar bækur verða eftir sem áður söluvaran í nýju versluninni og þar verður einnig boðið upp á tarot lestur, ljóðakvöld, bókmenntaviðburði og fleira. Eins og Akureyri.net greindi frá í júlí voru fornbókasalarnir á höttunum eftir nýju húsnæði þar sem verslunarrýmið í Kaupvangsstræti 19 hefur verið selt. 

Þessa dagana eru þeir að pakka niður í Gilinu en fornbókabúðin lokar þann 20. september. Stefna þeir að því að opna nýju verslunina í byrjun október að Strandgötu 11b en þar hefur ýmis starfsemi verið í gegnum tíðina, listagallerí, fiskbúð og vélsmiðja svo eitthvað sé nefnt. Húsnæðið fá þeir aðeins leigt í um ár og eru þeir því enn að leita að húsnæði til að kaupa eða leigja til lengri tíma í miðbænum.


Strandgata 11 b hefur hýst ýmsa starfssemi í gegn um tíðina t.d. fiskbúð og listagallerí. Fornbókasalarnir fá að nýta húsið í ár en til stendur að breyta því í íbúðir.

Svartar bækur eftir breskum grínþáttum

Fróða nafnið taka þeir félagar ekki með sér enda finnst þeim nafnið vera bundið við verslunina í Kaupvangsstrætinu og arfleið Olgu Ágústdóttur sem átti og rak verslunina á undan þeim en nafnið er líka í eigu hennar. Við höfum alltaf kunnað vel við okkur hér í Gilinu og flutningnum fylgja blendnar tilfinningar, segir Ren og Stu bætir við; Við erum leiðir yfir því að vera að fara héðan en á sama tíma finnst okkur spennandi að opna nýja verslun undir nýju nafni á nýjum stað.  Aðspurðir um nafnið segja þeir að þegar þeir hófu sína starfsemi í Fróða vantaði þá kennitölu og nafn á reksturinn og völdu þá nafnið Svartar bækur eftir breskum grínþáttum sem heita Black books. Segjast þeir halda mikið upp á þættina en þeir fjalla um sérvitran bóksala sem selur gamlar bækur og aðstoðarmann hans og gengur ýmislegt á í bókabúðinni. Við erum eiginlega orðnir eins og persónurnar í þáttunum,“ gantast Ren með, en bætir við að nafnið sé skemmtilegt því það vísar til svo margs.

Mig langar t.d. mikið til þess að læra að binda bækur svo ég geti gert við gamlar bækur. Ég hef bara ekki fundið neinn hér fyrir norðan sem gæti kennt mér handverkið en auglýsi hér með eftir einhverjum. Það gæti verið gaman að geta boðið upp á bókaviðgerðir í framtíðinni.

Ren og Stu hafa rekið fornbókabúðina Fróða í 5 ár í Listagilinu en hefja verslunarrekstur undir nafninu Svartar bækur í byrjun október. Verslunin í Gilinu lokar þann 20. september. 

Langar til að læra að binda bækur

Á Akureyrarvöku voru þeir félagar með lengri opnunartíma í bókabúðinni og bauð Stu þá einnig upp á lófalestur og lestur í tarotspil samfellt í 10 tíma. Fannst þeim þetta vera skemmtileg leið til þess að kveðja Gilið. Áhuginn kom mér á óvart, það var stanslaus straumur af fólki sem vildi láta spá fyrir sér. Einhverjir komu daginn eftir því þeir komust ekki að, þetta voru aðallega Íslendingar, segir Stu sem mun einnig bjóða upp á lófalestur og spá á nýja staðnum. Ég er líka færanlegur og get komið til fólks sem er t.d. með viðburði.

Einnig sjá þeir fyrir sér að geta boðið upp á fleiri bækur því verslunin er stærri á nýja staðnum á meðan lagerinn var stærri í Kaupvangsstrætinu. Þá vilja þeir líka gjarnan vera þar með fleiri viðburði þar sem nýja rýmið hentar líka betur til þess. „Okkur langar til þess að verslunin sé meira en bara bókabúð. Mig langar t.d. mikið til þess að læra að binda bækur svo ég geti gert við gamlar bækur. Ég hef bara ekki fundið neinn hér fyrir norðan sem gæti kennt mér handverkið en auglýsi hér með eftir einhverjum. Það gæti verið gaman að geta boðið upp á bókaviðgerðir í framtíðinni,“ segir Ren og er bjartsýnn á framtíð þeirra félaga á nýjum stað.   „Við eigum bara eftir að stækka, en kannski mest á þverveginn þar sem nýja verslunin er með ísbúð á aðra hönd og hamborgarastað á hina. 

Fornbókabúðin Fróði er verslun með sál og sögu. Húsnæðið þar sem verslunin hefur verið til húsa í tæp 40 ár var nýverið selt. Núverandi rekstraraðilar færa sig um set í miðbænum og opna nýja fornbókabúð undir nafninu Svartar bækur.