Fara í efni
Fréttir

Fólk hirði upp og hendi flugeldarusli

Þessi björgunarsveitakappi gladdi marga í gærkvöldi en á heima í almennu sorpi frá og með deginum í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Starfsmenn Akureyrarbæjar munu ekki hirða flugeldarusl í bænum eftir áramót eins og stundum hefur verið gert.  „Mikið rusl fellur til um áramót þegar miklu magni af flugeldum er skotið á loft. Á hverju ári hafa tómir flugeldakassar, spýtur og prik legið á víð og dreif um bæinn,“ segir á heimasíðu bæjarins og þar er fólk beðið um að huga að nærumhverfi sínu og taka til eftir áramótagleðina. Bent er á að flugeldaruslið á heima í almennu sorpi.

„Þegar jólin eru liðin og jólatrén hafa þjónað sínu hlutverki skulum við hjálpast að við að koma þeim í réttan farveg,“ segir einnig á heimasíðu bæjarins. Í byrjun janúar verður gámum undir jólatré komið fyrir við báðar verslanir Bónus, við Hagkaup og verslunarmiðstöðina Sunnuhlíð, við Kaupang og Hrísalund. Íbúar eru hvattir til að koma jólatrjám í þessa gáma þar sem þau verða ekki tekin við lóðarmörk.