Fara í efni
Fréttir

„Fólk heldur að það sé enginn heimilislaus“

Árný heldur úti Facebooksíðunni Hjálpum heimilislausum. Í gær stóð hún á Ráðhústorgi ásamt öðrum sjálfboðaliðum þar sem þær buðu heimilislausum upp á kaffi og kökur. Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir

Árný Rós Sigríðardóttir hefur í rúm 8 ár aðstoðað heimilislausa í Reykjavík. Í sumar flutti hún til Akureyrar og ætlar sér að halda uppteknum hætti, enda segir hún heimilislausa líka vera á Akureyri.

„Ég vil að útigangsfólki fari að fækka hér á Íslandi og að Íslendingar fari að hugsa um þá sem eru heimilislausir og komi með einhver úrræði. Heimilislausum er að fjölga án þess að fólk sé beinlínis að opna augun fyrir því,“ segir Árný Rós sem stóð á Ráðhústorginu á Akureyri í gær og bauð heimilislausum upp á kakó, kaffi, samlokur og kökur ásamt tveimur aðstoðarkonum.

Fjöldi fólks stoppaði hjá þeim og furðaði sig á því að það væri virkilega heimilislaust fólk á Akureyri. „Fólk heldur að það sé enginn heimilislaus á Akureyri en heimilislausir eru auðvitað alls staðar, það þarf bara að opna augun fyrir því,“ segir Árný og hvetur fólk til að horfa í kringum sig. „Að fólk sé ekki bara að pæla í sjálfum sér og sínum ættingjum, heldur að það horfi á fólkið í kringum sig og spái í það hvort eitthvað sé að og hvort einhvern vanti aðstoð.“

Var sjálf heimilislaus á tímabili

Málefni heimilislausra stendur Árnýju nær því hún hefur verið fátæk alla sína ævi og á tímabili voru þau hjónin heimilislaus nokkra mánuði í Reykjavík. „Þá vorum við að flakka á milli vina og fá að vera hér og þar og það var ekki gaman. Ég og maðurinn minn höfum ekki verið í einu né neinu rugli, heldur lentum bara á götunni af því við vorum að leigja hjá ekki góðu fólki og það var neysla í húsinu og við viljum ekki sjá svoleiðis.“

Árný segir fólk allt of oft vera með fordóma gagnvart heimilislausum og gerir ósjálfrátt ráð fyrir því að þeir sem sofi úti séu allir í dópi. „Saga fólks og aðstæður eru mismunandi,“ segir Árný og bendir á að heimilislaust fólk sé alls konar. „ Í sumar var t.d kona sem gisti í tjaldi með tvö börn hér og þar um bæinn.“ Árný segir að henni finnist fólk á Akureyri vera jákvæðara gagnvart umræðunni um heimilislausa heldur en fyrir sunnan. „Og meðan ég er hér á Norðurlandi mun ég sjá til þess að þessi hópur gleymist ekki, því við þurfum að fara að opna augun og gera eitthvað til hjálpar, áður en það gengur svo langt að fólk endi bara á götunni sem sprautufíklar eða fremji sjálfsmorð.“

Ekkert gistiskýli á Akureyri

Árný og eiginmaður hennar fluttu til Akureyrar í júní. Um leið og þau voru flutt norður segist hún hafa farið að kanna aðstöðu heimilislausra á Akureyri en eins og áður segir hefur hún verið að aðstoða þennan hóp í Reykjavík upp á sitt einsdæmi m.a. með fata- og matargjöfum. „Í Reykjavík er gistiskýli en það er ekkert svoleiðis hérna, ekkert úrræði hér á Akureyri eftir því sem ég best veit,“ segir Árný.

Sjálf á Árný ekki mikið að gefa, enda öryrki, en henni hefur oft tekist að fá einhverja til liðs við sig, t.d. KFC og Dominos í Reykjavík. Í gær stóð hún á Ráðhústorginu ásamt konum sem buðu henni aðstoð eftir að hún lagði út fyrirspurn á Facebook varðandi hjólhýsi sem hýst gæti viðburðinn. Hjólhýsið fékk hún lánað frá góðhjörtuðum íbúa í bænum og Sykurverk, Kaffibrennslan, Axelsbakarí og Matur og mörk, aðstoðuðu hana við veitingarnar sem boðið var upp á í gær.

„Ástæðan fyrir því að 12. desember varð fyrir valinu er sú að móðir mín dó fyrir 19 árum síðan. Þegar mamma vissi að einhver var í neyð þá hjálpaði hún fólki. Ég er beinlínis að tileinka henni þetta, að gera eitthvað gott fyrir hennar hönd, því hún er ekki til staðar lengur,“ segir Árný sem vonast til að framhald verði á. Kannski einu sinni í mánuði ef henni tekst að semja við bæinn um að fá að vera á föstum stað.

Árný Rós hefur aðstoðað heimilislausa undanfarin ár í höfuðborginni. Hún er nú flutt til Akureyrar og vill leggja sitt af mörkum til heimilislausra í bænum.