Flugu frá New York með kvikmyndabúnað
Fraktflugvél Loftleiðir Icelandic flaug beint frá John F. Kennedy flugvelli í New York til Akureyrar í vikunni með ýmiskonar búnað fyrir kvikmyndatökur á vegum fyrirtækisins TrueNorth.
Á vef Morgunblaðsins, mbl.is, kemur fram að innan tíðar hefjist tökur á sjónvarpsþáttunum Retreat. Það er stórt verkefni; þættirnir eru framleiddir af FX sem heyrir undir Fox en TrueNorth greiðir götu tökuliðsins hér á landi. Í aðalhlutverki eru þau Clive Owen og Emma Corrin. Tökurnar á Íslandi standa yfir í um þrjár vikur, meðal annars á Siglufirði, í Vök Baths við Egilsstaði, á lúxushótelinu Deplum í Fljótum og í tónlistarhúsinu Hörpu.
„Við höfum leigt svona vélar fyrir tvö verkefni í röð og fyllt þær af búnaði. Þetta eru óneitanlega góð tíðindi fyrir efnahaginn á Íslandi,“ segir Leifur B. Dagfinnsson, framleiðandi hjá TrueNorth í frétt mbl.is.
„Við tökum á Norðurlandi næstu daga og svo förum við aðeins víðar um landið, látum opna fyrir okkur hótel og fleira,“ segir Leifur sem verst annars fregna af verkefninu. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins koma um 250 manns að tökunum.